HÍ byggir upp afburðasvið

Rektor Háskóla Íslands í ræðustóli
Rektor Háskóla Íslands í ræðustóli Mbl.is/Kristinn

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, sagði við útskrift tæplega 1.100 kandídata í dag, að á næstu fimm árum stefni  Háskólinn að því að byggja upp fjögur til sex afburðasvið eða stofnanir, sem tryggt verði sérstakt fjármagn og grundvöllur til að skara framúr á alþjóðavísu. 

Hún sagðist telja mikilvægt að stefnt verði að því að á a.m.k. einu þessara sviða verði háskólinn í flokki með 10 bestu slíkum stofnunum eða sviðum í heiminum. 

Kristín sagði  markmið skólans vera að sækja töluverðan hluta þess fjármagns sem þurfi til uppbyggingarinnar til alþjóðlegra styrktarsjóða og fyrirtækja og lagði áherslu á mikilvægi alþjóðlegra samstarfssamninga sem Háskóli Íslands hefði gert við margar helstu mennta- og vísindastofnanir í heiminum. Nefndi hún Harvard háskóla,  Columbia háskóla í New York, Caltech í Kaliforníu, Minnesotaháskóla, Fudan háskóla í Kína og Vísindastofnun Indlands.  

Kristín sagði einnig að það væri hlutverk HÍ á erfiðum umbrotatímum að taka þátt í að móta framtíð samfélagsins.  Grunnstoðir íslensks samfélags, þar á meðal menntakerfið, séu afar traustar og því full ástæða til bjartsýni á framtíðina. 

Uppbygging af því tagi sem HÍ hefði á prjónunum sé mikilvægur þáttur í að hraða uppbyggingu þekkingarsamfélags á Íslandi, sem sé grundvöllur framtíðarhagvaxtar og velferðar.  

Þá sagði hún að aðsókn að Háskóla Íslands hafi aukist mjög hratt milli ára. Þrisvar sinnum fleiri vilji nú læra matvæla- og næringarfræði við skólann en áður, tvöfalt fleiri vilja nú læra rafmagns- og tölvuverkfræði. Sextíu og fimm prósent fleiri vilja í hagfræði, fjörtíu prósent í lögfræði, fjörtíu og þrjú prósent í umhverfis og byggingarverkfræði. Mikil aukning sé einnig í aðsókn að sagnfræði og heimspeki og íslensku-og menningardeild.

mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina