Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar í könnun

Valhöll, hús Sjálfstæðisflokksins.
Valhöll, hús Sjálfstæðisflokksins.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins dregst saman um tæp sex% frá því í apríl, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. 32,8% segjast nú myndu kjósa flokkinn.  Á landsbyggðinni nýtur flokkurinn fylgis 25,6% kjósenda en í apríl voru það 39,4 prósent. Samkvæmt könnun Fréttablaðsins myndu þingmenn Sjálfstæðisflokksins vera 21 en þeir eru 25 nú.

Fylgi Samfylkingar eykst hins vegar um rúm 5%  frá síðustu könnun. 32% segjast nú myndu kjósa flokkinn. Meðal kjósenda utan höfuðborgarsvæðisins eykst fylgi Samfylkingarinnar um 75%, úr 21,2 prósentum í 37,2 prósent. Í apríl dalaði fylgi flokksins á landsbyggðinni hins vegar um þrettán%. Þingmenn Samfylkingar yrðu samkvæmt þessu 21, en eru nú átján.

Fylgi Vinstri grænna dregst saman um tæp 4% frá síðustu könnun og segist 17,1 prósent styðja flokkinn. Samkvæmt því myndi þingflokkur Vinstri grænna telja ellefu manns, tveimur fleiri en flokkurinn hefur nú.

8,9 prósent segjast nú myndu kjósa Framsóknarflokkinn, sem er tæpum tveimur prósentustigum meira en í síðustu könnun blaðsins. Flokkurinn fengi samkvæmt því fimm þingmenn kjörna, en hefur sjö nú. Frjálslyndi flokkurinn er með 8% fylgi samkvæmt könnuninni  og fengi hann samkvæmt því fimm þingmenn. Einn maður myndi því bætast við þingflokkinn.
mbl.is