Átök innan fíkniefnaheimsins á Akureyri

Lögreglan á Akureyri stöðvaði tvö hópslagsmál í nótt og í …
Lögreglan á Akureyri stöðvaði tvö hópslagsmál í nótt og í gær. mbl.is/Július

Lögreglan á Akureyri fékk tvö útköll í nótt og í gærkvöldi vegna fjöldaslagsmála. Virðist sem aðilar innan fíkniefnaheimsins hafi verið í innbyrðist átökum. Lögreglan á Húsavík veitti aðstoð við að koma á friði. Einn var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar en hann reyndist með óverulega áverka.

Það var um hálf tíu leytið í gærkvöldi sem lögreglunni barst tilkynning um slagsmál. Þegar hún kom á staðinn áttu sjö eða átta manns í  átökum. Kom lögreglan á friði en var svo aftur kölluð til klukkan hálf eitt og voru þá fimm eða sex manns í slagsmálum. 

Ýmis vopn voru notuð í þessum bardögum svo sem golfkylfur, axir og borðfætur.

Lögreglan á Húsavík var ekki kölluð til en heyrði af slagsmálunum í talstöð og kom á staðinn til aðstoðar.

Tveir voru handteknir vegna slagsmálanna. Dúsa þeir í fangageymslum og bíða yfirheyrslu. Lögreglan á Akureyri telur að aðilar innan fíkniefnaheimsins hafi verið að berjast innbyrðis.

mbl.is

Bloggað um fréttina