ESB: Hvalveiðar þvælast fyrir

Hvalveiðar Íslendinga munu þvælast fyrir í öllum alþjóðlegum samskiptum.
Hvalveiðar Íslendinga munu þvælast fyrir í öllum alþjóðlegum samskiptum. mbl.is/ÞÖK

„Nú hefur Evrópusambandið tekið sameiginlega afstöðu gegn hvalveiðum," segir Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands. Árni hefur undir höndum bréf frá Stavros Dimas, umhverfisstjóra framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins þar sem látið er liggja að því að hvalveiðimálið muni þvælast fyrir öllum samskiptum Íslands og ESB.

„Þetta þýðir það að þetta mál mun flækjast fyrir í samskiptum Íslands við Evrópusambandið og skapa óþarfa vinnu fyrir Íslenska diplómata," sagði Árni í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Árni vitnar í Morgunblaðsgrein fráfarandi sendiherra Bretlands á Íslandi, Alp Mehmet og segir að þar megi lesa á milli línanna að hvalveiðimálið verði tekið upp í öllum samskiptum við Ísland. „Það þýðir að íslenskir diplómatar þurfi að eyða ofboðslega miklum tíma í þetta mál," sagði Árni og telur hann þetta útskýra andstöðu utanríkisráðherra og efasemdir forsætisráðherra um að hvalveiðar geti svarað kostnaði fyrir Ísland sem Árni segist hafa heyrt af.

„Þá er ég ekki að tala um peningahliðina heldur að þurfa að eyða svona miklum tíma í þetta í alþjóðlegum samskiptum," sagði Árni að lokum.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert