Upptaka evru ekki möguleg án ESB-aðildar

Percy Westerlund, sendiherra ESB gagnvart Noregi og Íslandi.
Percy Westerlund, sendiherra ESB gagnvart Noregi og Íslandi. mbl.is/Kristinn

Upptaka evru er ekki möguleg án aðildar að Evrópusambandinu. Þetta segir Percy Westerlund, sendiherra  og yfirmaður fastanefndar Evrópusambandsins gagnvart Íslandi. 

„Ég er nokkuð undrandi að heyra þetta frá [Birni Bjarnasyni] dómsmálaráðherra vegna þess að hann hefur áður sagt, eins og forsætisráðherrann hefur líka gert, að upptaka evru geti eingöngu átt sér stað í tengslum við aðild að ESB," segir Westerlund.

Hann bendir á að þessi spurning hafi verið rædd mjög ítarlega á Íslandi í nokkurn tíma. ,,Skilaboðin frá Brussel hafa ávallt verið þau sömu, þ.e.a.s. að frá okkar sjónarhóli er upptaka evrunnar nátengd aðild."

Björn hefur sagt að hugmynd hans sé ekki sú að upptaka evru yrði gerð einhliða af Íslands hálfu heldur á grundvelli samninga við ESB. Hann vísar til EES og Schengen-samkomulagsins í þessu samhengi. Westerlund segir þessa leið útilokaða. Meginreglan, sem hafa verði í huga, sé sú að bandalagið lítur á upptöku evrunnar eingöngu fyrir aðildarríki. Það skipti engu máli í því samhengi hvort ríki vilji láta reyna á einhliða upptöku hennar eða fara einhverskonar samningaleið. Á endanum þurfi alltaf samþykki ESB að liggja fyrir.

„Grundvallar vandamálið við þessa aðferð væri sú að hún sniðgengur algerlega þá staðreynd að ESB lítur á evruna sem gjaldmiðil bandalagsþjóðanna. Og jafnvel þó svo væri ekki þá gætu komið upp vandamál gagnvart öðrum aðildarlöndum EFTA. Allar ákvarðanir á vettvangi EFTA byggjast á samkomulagi allra aðildarþjóðanna þannig að þið þyrftuð þá að fá samþykki frá Lichtenstein og Noregi."

Westerlund bendir einnig á að mikilvægast sé að hafa í huga að það sé aðeins ein leið til að taka upp evruna og það sé með aðild og Geir H. Haarde forsætisráðherra hafi ítrekað lýst því yfir.

„Ég var viðstaddur þegar hann átti fund með José Manuel Baroso [forseta framkvæmdastjórnar ESB] í Brussel og hann sagði með afdráttarlausum hætti að hann liti svo á að upptaka evru á Íslandi gæti einungis átt sér stað í tengslum við aðild. Hann er ekki, a.m.k. á þessu stigi, hrifinn af aðild að ESB en tók skýrt fram að upptaka evru yrði ekki rædd nema í þessu samhengi," segir Westerlund.

Að sögn hans er auðveldara fyrir ríki að taka upp einhliða bandaríkjadal en evruna. Evran sé mikilvægt pólitískt tæki á vettvangi ESB og hún verði ekki aðskilin frá spurningunni um aðild að bandalaginu. „Þetta hefur verið staðföst stefna ráðherraráðsins, framkvæmdastjórnarinnar og Seðlabanka Evrópu," segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina