Hátíðir fóru vel fram

Góð stemmning var á Ráðhústorginu á Akureyri í sólskininu í …
Góð stemmning var á Ráðhústorginu á Akureyri í sólskininu í gær. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Stærstu útihátíðirnar, sem hófust í gær, fóru vel fram í gærkvöldi og nótt. Að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum komu upp tvö fíkniefnamál í Herjólfsdal. Lögreglan á Akureyri segir, að allt hafi gengið þar óhappalaust þótt mikill mannfjöldi væri í bænum og engin sérstök mál komu til hennar kasta.

Að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum voru fíkniefnamálin smávægileg en lagt hafi verið hald á neysluskammta. Einn gisti fangageymslur vegna óspekta. Talsverður erill var í Herjólfsdal en lögregla segir að hann hafi verið meiri en við mátti búast. Áætlað er að yfir 10 þúsund manns hafi verið í dalnum í gærkvöldi. Veður var afar gott í nótt.

Þétt bílaumferð var til Akureyrar síðdegis í gær og fram á nótt en ekkert óhapp varð þótt allmargir hafi ekið of hratt að mati lögreglu. Lögreglan segir, að góður andi hafi verið í miðbænum í nótt enda sýndi veðrið á sér sínar bestu hliðar.

Engin sérstök mál komu til kasta lögreglu í Neskaupstað þar sem Neistaflug er haldin. Lögregla segir að talsvert af fólki sé í bænum en þó hafi oft verið fleira um verslunarmannahelgi. 

Mikill erill var hjá lögreglunni í Reykjavík í gærkvöldi og nótt. Fimm gistu í fangageymslum lögreglunnar í morgun. Sex voru stöðvaðir, grunaðir um ölvun við akstur.

Eitt líkamsárásarmál kom upp á krá í miðborginni en þar sló maður annan mann með glasi í andlitið og skarst við það á hendi.

Á Suðurnesjum voru tveir ökumenn  stöðvaðir í kvöld grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.  Í nótt var einn ökumaður kærður fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbraut þar sem hann ók á 116 km hraða.  Þá var ungur ökumaður stöðvaður á bifreið í Reykjanesbæ sem ekki var kominn með ökuréttindi. Einn var í fangageymslu í morgun vegna ölvunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina