Skólavörðustígur opnaður á ný

Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri opnaði Skólavörðustíginn eftir breytingar
Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri opnaði Skólavörðustíginn eftir breytingar mbl.is/Frikki

Framkvæmdum við endurbyggingu efri hluta Skólavörðustígs er lokið og því bjóða verslunareigendur í samvinnu við Reykjavíkurborg og Ístak, til  opnunarhátíðar í dag. Var það Ólafur F. Magnússon borgarstjóri sem opnaði götuna kl. 13:00 og munu fjölmargir listamenn skemmta á Skólavörðustígnum í dag.

Allt yfirborð götu og gangstétta hefur verið endurnýjað ásamt lögnum veitufyrirtækja, skipt var um jarðveg og snjóbræðsla sett í götu og gangstéttar. Þar með er komið samfellt upphitað göturými frá Skólavörðuholti niður í Kvos, samkvæmt tilkynningu.

Í yfirborðsfrágang er notað íslenskt efni eins og kostur er, þar með talinn grásteinskantur, grásteinspollar og hellur, ásamt trjágróðri. Akbrautir eru malbikaðar en gangstéttir og upphækkanir á gatnamótum eru stein- og hellulagðar.

Framkvæmdir hófust í byrjun mars og var áhersla lögð á það í útboði borgarinnar að hraða framkvæmdum sem mest og halda gönguleiðum opnum á framkvæmdatíma þar sem um vinsæla verslunar- og göngugötu er að ræða. Verkáætlun hefur staðist að mestu en verklok voru áætluð 31. júlí.

Framkvæmdirnar við þennan síðari áfanga endurgerðar Skólavörðustígs voru á vegum Framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkur, Orkuveitu Reykjavíkur, Gagnaveitu Reykjavíkur ehf. og Mílu ehf.

mbl.is

Bloggað um fréttina