Ísland ver mestu OECD ríkja til menntastofnana

Ísland varði 8% af vergri þjóðarframleiðslu til menntamála árið 2005.
Ísland varði 8% af vergri þjóðarframleiðslu til menntamála árið 2005. mbl.is/Frikki

Útgjöld til menntastofnana jukust í öllum OECD löndunum frá 1995 til 2005 og að meðaltali um 19% frá 2000 til 2005. Að meðaltali vörðu OECD ríkin 6,1% af vergri landsframleiðslu til menntastofnana árið 2005.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu OECD, Education at a Glance 2008, sem kom ut í dag. Útgjöld Íslendinga til menntastofnana námu 8% af vergri landsframleiðslu árið 2005 og var Ísland í efsta sæti meðal OECD ríkja hvað þessi útgjöld varðar.

Ríkin vörðu stærri hluta opinberra útgjalda til menntamála árið 2005 en árið 1995. Þannig jukust útgjöld til menntastofnana sem hlutfall af opinberum útgjöldum úr 11,9% í 13,2% frá 1995 til 2005 innan OECD.

Nemendum á Íslandi hefur fjölgað ár frá ári. Þannig stunduðu 84,6% 15-19 ára unglinga nám skólaárið 2005-2006 en meðaltal OECD ríkjanna var 81,5%. Í aldurshópnum 20-29 ára eru 37,2% Íslendinga í námi. Eingöngu í Finnlandi og Danmörku stunda fleiri nám á þessum aldri.

Þá eru 12,5% fólks á fertugsaldri í námi og 3,4% þeirra sem eru fertugir eða eldri. Ísland hefur næsthæsta nettó innritunarhlutfall allra OECD landa í fræðilegt háskólanám á eftir Ástralíu, 78%, en meðaltal OECD landa er 56%. Nettó innritunarhlutfall er reiknað þannig að fundið er hlutfall nýinnritaðra eftir aldri af mannfjölda á sama aldri og síðan er lagt saman fyrir alla aldurshópa.

Fram kemur í skýrslunni, að þetta háa innritunarhlutfall á Íslandi skýrist að hluta til af fjölda eldri háskólanema enda eru 20% nýnema á Íslandi 40 ára eða eldri. Svo hátt innritunarhlutfall muni því væntanlega ekki haldast til lengdar þar sem fjöldi eldra fólks sem aldrei hafi stundað háskólanám sé takmarkaður.

Umfjöllun Hagstofunnar um skýrslu OECD 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert