Enn andarnefjur á Pollinum

Að minnsta kosti tvær andarnefjur eru enn á Pollinum við Akureyri. Skipstjóri rannsóknarbátsins Einars í Nesi sá fimm dýr á leið út úr Eyjafirðinum í gær og taldi það andarnefjurnar sem hafa verið á Pollinum, en blaðamaður Morgunblaðsins sá tvær með eigin augum í hádeginu. 

Eftir að dýranna fimm varð vart í gær á leið til hafs var gert ráð fyrir því að þar væri um að ræða „Akureyringana“ en svo virðist ekki vera, a.m.k. ekki alla. Einn starfsmanna Ríkisútvarpsins sem blaðamaður ræddi við taldi sig meira að segja hafa séð allar fimm andarnefjurnar í morgun. Starfsstöð RÚV er steinsnar frá sjónum og gott útsýni þaðan yfir Pollinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert