Ný bók um Hafskipsmálið

Í nýrri bók, sem kemur í dag út um Hafskipsmálið svonefnda, eru upplýsingar, sem benda til þess að skiptaráðendur, ríkislögmaður og seðlabankastjóri hafi allir komið að samningum forráðamanna Eimskips og bankastjóra Útvegsbanka Íslands um hvernig Eimskip fengi keyptar eignir þrotabúsins eftir að Hafskip yrði keyrt í gjaldþrot.

Höfundur bókarinnar Hafskip í skotlínu er Björn Jón Bragason, sagnfræðingur. Fram kemur í tilkynningu, að lögð hafi verið fram krafa hjá ríkissaksóknara um að fram fari opinber rannsókn á aðdraganda og eftirmálum gjaldþrots Hafskips, sem knúið var í þrot þann 6. desember 1985. Sú krafa sé að stórum hluta til grundvölluð á nýjum upplýsingum sem komið hafa í ljós við rannsókn Björns Jóns.

Í tilkynningunni segir, að endanlega hafi verið gengið frá samningum um kaup Eimskips á þrotabúi Hafskips án vitneskju forráðamanna Hafskips nokkrum dögum fyrir gjaldþrot félagsins.

Þá segir, að í bókinni sé sýnt fram á að hin umfangsmikla rannsókn skiptaráðendanna í kjölfar gjaldþrotsins hafi ekki einungis orðið grunnur að sakamálarannsókninni, sem efnt var til heldur hafi það verið skiptaráðendur en ekki yfirmenn rannsóknarlögreglunnar sem stýrðu þeirri rannsókn.

Þar birtist einnig upplýsingar um skýrslu sem unnin var af stjórnendum og einum endurskoðenda Eimskips nokkrum mánuðum fyrir gjaldþrotið, m.a. um verðmæti skipastóls Hafskips. Svo virðist sem skýrslan hafi verið ákveðinn burðarás í allri málsmeðferð skiptaráðenda og annarra sem unnu að margþættum rannsóknum í kjölfar gjaldþrotsins.

Opnað hefur verið vefsetrið hafskip.is og er því  ætlað að vera miðstöð upplýsinga um Hafskipsmálið og fjölmiðlaumfjöllun vegna þess.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert