Ekki tímabært að ræða um ESB

Geir H. Haarde á blaðamannafundi í Helsinki í dag.
Geir H. Haarde á blaðamannafundi í Helsinki í dag. norden.org/Johannes Jansson

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi í Helsinki í dag, að ekki væri tímabært að ræða hugsanlega aðildarumsókn að Evrópusambandinu fyrr en eftir að búið væri að leysa þá erfiðleika sem nú væri við að glíma.

„Við erum að reyna að leysa raunveruleg vandamál nú, í ríkisstjórninni, á Alþingi, í bönkunum og fyrirtækjum," hefur AFP fréttastofan eftir Geir.

Talsvert er fjallað um hugsanlega aðildarumsókn Íslendinga í evrópskum fréttum í dag en skoðanakönnun Fréttablaðsins, sem sýnir að um 70% þátttakenda vill að sótt verði um aðild að ESB og myntsamstarfi Evrópu, hefur vakið athygli.

AFP hefur eftir Gunnari Haraldssyni, forstöðumanni Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, að Evrópumál og evran tengist fjármálakreppunni með beinum hætti. 

„Íslendingar eru að fyllast efasemdum um krónuna. Vaxandi fjöldi telur að eina lausnin sé að eiga samstarf við önnur lönd í stað þess að vera einir á báti," segir hann. Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, lýsti svipaðri skoðun í Helsinki í dag.

Gunnar segir, að líkur séu á því að sú breyting, sem orðið hafi á afstöðu Íslendinga sé líklega varanleg. Hann bendir á að jafnvel sjómenn, sem til þessa hafi verið algerlega andvígir ESB-aðild, hafi dregið úr andstöðu sinni og hvetji til aukins gjaldeyrisstöðugleika.

Svo virðist sem afstaða Dana til evrunnar sé einnig að breytast. Danir höfnuðu upptöku evru árið 2000. Danir hafa hins vegar lent í erfiðleikum vegna krónunnar og seðlabanki landsins hefur hækkað vexti til að hamla gegn gjaldeyrisflótta. Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra, sagði nýlega að nú sé ljóst hve það geti verið skaðlegt að standa utan við evrusvæðið í ástandi eins og nú ríki.

mbl.is