Þúsundir starfa tapast á næstunni

Undanfarnar vikur hafa yfir 2.000 uppsagnir sem taka gildi á næstu þremur mánuðum verið tilkynntar Vinnumálastofnun, samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni.

Þeim fjölgar ört dag frá degi og er fastlega búist við að tilkynningum um hópuppsagnir fjölgi enn í næstu viku. Fjölmörg fyrirtæki sögðu upp starfsfólki í gær, lækkuðu laun starfsmanna og gripu til annarra hagræðingaraðgerða. Þar á meðal voru Nóatún, Skjárinn, Klæðning og 365. Nóatún hyggst segja upp um hundrað manns, 365 um tuttugu, Skjárinn öllum starfsmönnum sínum, 45 talsins, og Klæðning sagði upp öllum starfsmönnum sínum, um fimmtíu talsins.

Erfitt í byggingariðnaði

Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir uppsagnir hafa verið mestar í byggingariðnaði að undanförnu. Störf sem þar muni tapast á næstunni skipti þúsundum. „Það eru um sextán þúsund manns sem hafa starfað við byggingariðnað hér á landi og við teljum að sá fjöldi gæti farið niður í ellefu til tólf þúsund í þessari lægð, á næstu mánuðum. Þó verður að viðurkennast að horfur til næstu mánaða eru ekki góðar og því gæti staðan versnað. Það er gríðarlega mikilvægt að gangverkin í atvinnulífinu stoppi ekki algjörlega. Ríki og sveitarfélög geta ekki hætt við allar framkvæmdir, þó staðan sé erfið. Það myndi hafa skelfileg áhrif.“

Forsvarsmenn Húsasmiðjunnar gripu til þess að lækka laun hjá starfsmönnum í samráði við þá auk þess sem laun stjórnar og stjórnenda voru lækkuð og bónusgreiðslur til þeirra felldar niður.

Svipaða sögu er að segja af fjölda fyrirtækja sem ýmist hafa þegar hafið hagræðingaraðgerðir með uppsögnum, launalækkunum og öðru þess háttar eða hafa það í undirbúningi, samkvæmt upplýsingum frá Samtökum atvinnulífsins.

Uppsagnarmánaðamót

Gylfi Arnbjörnsson, formaður Alþýðusambands Íslands, segir erfitt að spá því hversu mikið atvinnuleysið verði. Staðan sé erfið en fyrirtæki verði að líta á uppsagnir sem síðasta úrræði þegar kemur að aðgerðum til að mæta efnahagsvanda. „Það er auðvitað nú þegar orðið ljóst, að það er þungt framundan í íslensku atvinnnulífi. Þessi mánaðamót [október til nóvember, innsk. blm.] og næstu verða mikil uppsagnarmánaðamót, því miður, en að nokkru leyti var það fyrirsjáanlegt, sérstaklega í byggingariðnaði. Það eru framundan erfiðir tímar á næstu mánuðum. Víða er verið að reyna að koma til móts við fólk með því að minnka starfshlutföll og jafnvel lækka laun, áður en til uppsagna kemur. Verðbólgan er erfið fyrir alla en atvinnuleysið er auðvitað verst af öllu og þess vegna vonar maður að fyrirtækin hugsi til uppsagna sem algjörs örþrifaráðs.“
Í hnotskurn
» Hópuppsagnir, þar sem fyrirtæki segja upp þrjátíu manns eða fleiri, eru tilkynntar til Vinnumálastofnunar. Þar er fastlega búist við því að tilkynningum um frekari uppsagnir muni fjölga.
» Erfitt er að fylgjast nákvæmlega með öðrum uppsögnum en hópuppsögnum þar sem upplýsingum um þær er ekki safnað skipulega saman.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »