Lögregla ber sögu Íslendings til baka

Frá strandstaðnum við Udbyhøj
Frá strandstaðnum við Udbyhøj

Greint er frá vandræðum Íslendingsins Ólafs Haraldssonar  og samskiptum hans við dönsk yfirvöld á danska fréttavefnum Randers Amtsavis. Ólafur greinir frá sinni hlið málsins í Morgunblaðinu í dag og ber frásögnunum ekki saman. 

Fram kemur á vefnum að Ólafur hafi ekki orðið við tilmælum yfirvalda um að sigla bátnum til hafnar, þar sem til stóð að skoða hann út frá haffærni og mengunarhættu eftir strandið. Lögregla hafi því að lokum orðið að aðstoða hafsögumann við að komast um borð í bátinn og sigla honum til hafnar. 

Þá segir að Ólafur staðhæfi að honum hafi ekki staðið nein hjálp til boða og að erfitt sé að sjá af frásögn Ólafs annars vegar og frásögn lögreglu hins vegar að um sama atvik sé að ræða. Þannig virðist hann til dæmis ekki gera sér grein fyrir því að houm hafi verið gert að sigla bátnum til hafnar.

Talsmaður lögreglunnar Claus Danø segir að Ólafur hafi strandað yst í Randersfirði um miðjan dag á laugardag og að hann hafi verið losaður af standstað um sólarhring síðar með aðstoð lóðsbáts. Hann hafi þá fengið fyrirmæli um að sigla til hafnar í Udbyhøj þannig að hægt væri að kanna ástand bátsins.

Hann hafi hins vegar ekki orðið við því heldur siglt til og frá um fjörðinn og helst hafi litið út fyrir að hann væri villtur. Segir hann Ólaf hafa verið einan um borð án sjókorta og siglingartækja. Hann hafi hins vegar hafnað aðstoð við að komast til lands og að lokum hafi lögregla því ákveðið að taka af honum ráðin. 

Frásögn Ólafs er hins vegar á annan veg: „Á Íslandi byrjar maður á því að aðstoða fólk og síðan tala menn saman eftir á. Ég var einn þarna úti. Það kom mér engin til hjálpar og ég var matarlaus. Ég vildi sigla inn til Udbyhøj til að leggja mig þar en leiðin var illa merkt þannig að ég fór af leið og strandaði. Þar sat ég svo alla helgina. Það sigldu margir bátar framhjá. Ég þekki ekki svæðið. Ég bý í Noregi og var á leið þangað eftir að hafa sótt bátinn til Árósa. Ég tel menn ekki geta treyst á að fá hjálp í Danmörku,” segir hann.

Leitt er líkum að því í dönsku fréttinni að Ólafur hafi ekki skilið það sem fram fór í samskiptum hans og þeirra Dana sem hann átti samskipti við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert