Bónusfánamaður handtekinn

Bónusfána flaggað á Alþingishúsinu.
Bónusfána flaggað á Alþingishúsinu. Ómar Óskarsson

Aðgerðasinninn Haukur Hilmarsson, sem dró Bónufána að húni á þaki Alþingis fyrir tveimur vikum,  var handtekinn í gærkvöld. Gerðist það eftir vísindaferð nemenda Háskóla Íslands í Alþingi. Haukur á eftir að afplána fjórtán daga af gömlum, átján daga sektardómi. 

Dóminn fékk Haukur 2005, vegna aðgerða samtakanna Saving Iceland sem berjast gegn virkjunum. En Haukur neitaði þá að borga.  Var hann  boðaður tveim árum seinna í afplánun, mætti og sat inni í fjóra daga  en var svo sleppt vegna plássleysis. Móðir Hauks, Eva  Hauksdóttir, segir hann enga boðun hafa fengið um að  afplánun ætti að hefjast á ný, fyrr en hann var handtekinn í gær.

Almennt á fólk að fá þriggja vikna fyrirvara. Hvorki fangelsismálastjóri, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu né yfirmaður innheimtumiðstöðvar  sekta og sakarkostnaðar kannast sérstaklega við málið. Það er á hendi innheimtumiðstöðvar að lýsa eftir þeim sem ekki greiða sektir. 

Erna Björg Jónmundsdóttir, yfirmaður innheimtumiðstöðvar, segir að boða eigi menn í afplánun með þriggja vikna fyrirvara en hún geti ekki fullyrt að svo stöddu hvort það hafi verið gert í þessu máli. Tvennt komi til greina, Haukur hafi verið boðaður með réttum fyrirvara en ekki mætt og því farið inn í eftirlýsingarkerfi lögreglunnar. Hinn möguleikinn sé sá að hann hafi verið eftirlýstur en mögulega hafi boðun fyrirfarist.

Lögregla haft síðan haft af honum afskipti af einhverjum ástæðum og þá komið í ljós að hann var eftirlýstur. Við slíkar aðstæður eru menn handteknir.

mbl.is