Erlendir miðlar segja frá mótmælunum

Erlendir fjölmiðlar segja frá því að hundruðir hafi safnast við …
Erlendir fjölmiðlar segja frá því að hundruðir hafi safnast við lögreglustöðina Mbl.is/Júlíus

Greint er frá mótmælum Íslendinga í gær í fjölmörgum erlendum fjölmiðlum í dag. Einkum eru það háreistin við lögreglustöðina á Hverfisgötu sem vekja athygli, t.d. á vef BBC sem segir frá því að fimm manns hafi slasast þegar lögreglan beitti piparúða gegn fólki.

Á síðu Politiken er vitnað í danska sendiherrann á Íslandi, Lasse Reimann, sem segir að reiði Íslendinga fari vaxandi. Han lýsir því að gremjan hafi skinið úr hverju andliti sem mætti honum á leið á Austurvöll í gær. „Mótmælin hvern laugardag eru útrás fyrir gremju, sem síðan breytist í bræði. Mörgum finnst að þær aðstæður sem Ísland er lent í verði að hafa einhverjar afleiðingar fyrir þá sem tóku ákvarðanirnar,“ segir Reimann í viðtali við Politiken.

Hann segir jafnframt að á endanum hljóti mótmælin að hafa pólitískar afleiðingar, engin geti til langs tíma hunsað mótmæli svo margra.

Á norska vefnum E24 er sagt að mótmæli Íslendinga vegna fjármálakreppunnar hafi hingað til verið friðsamleg en í gær hafi það endað. Þess sé m.a. krafist að seðlabankastjórnin segi af sér.

mbl.is