Ísland ekki einangrað til frambúðar

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson

Ísland hefur ekki hafa einangrast sem land til frambúðar. Hins vegar er ljóst að Íslendingar einangruðust tímabundið fyrstu dagana eftir áfallið meðan stjórnvöld voru að átta sig á því hvernig bregðast ætti við ástandinu og þangað til tækifæri gafst til þess að koma þeim skilaboðum til nágrannalandanna.

Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssyni, alþingismanns og formanns utanríkismálanefndar Alþingis, en hann var ásamt Birni Bjarnasyni, dóms- og kirkjumálaráðherra, gestur á opnum fundi hverfafélaga sjálfstæðismanna í Vestur- og miðbæ og Austurbæ-Norðurmýri í Iðnó í dag.

Gagnrýndi harkaleg viðbrögð Breta

Bjarni sagði ekki skrýtið að ákveðin spenna hefði myndast í samskiptum ríkja við þessar aðstæður, en taldi að það hefði nú settlast. Fordæmdi hann Breta fyrir alltof harkaleg viðbrögð í garð Íslendinga með beitingu hryðjuverkalaganna.

Sagði hann það langtímaverkefni að endurreisa fjármálakerfið hérlendis og endurvekja traust erlendra aðila á íslenska kerfinu. Það vantraust mun lifa, því bara sú staðreynd að kerfið gat hrundið, þá mun vera varanlegt Íslands álag í lánafyrirgreiðslu út af því sem hér gerðist.

Meðal þeirra spurninga sem fyrir fundinn var hvort Ísland væri að einangrast, hvaða kostir standi opnir í gjaldeyrismálum þjóðarinnar, hvernig vænlegast sé að vega kosti og galla ESB aðildar. 

Strax þarf að leita nýrra lausna í gjaldeyrismálum

Að sögn Bjarna þurfa Íslendingar nú þegar að hefja vinnu við að finna nýja lausn í gjaldeyrismálum. Sagði hann vel koma til álita að íslenska krónan sé hagkvæmasti kosturinn til styttri framtíðar. „Vandamál okkar var að íslenska krónan hætti að endurspegla íslenskt hagkerfi, þegar vaxtamunurinn var orðinn ákveðinn mikill. Þá fór krónan að draga til sín fjárfesta sem vildu hagnast á gengismuninum. Það leiddi til mikillar einkaneyslu.“

Að mati Bjarna er mjög eðlilegt að horft sé til þess að taka upp evru. Sagði hann hins vegar ekki óeðlilegt að aðrir kostir yrðu skoðaðir í stöðunni, svo sem dollar eða svissneskan franka.

Nálægð Íslands við Evrópu og ESB er hins vegar augljósasti kosturinn að mati Bjarna, meðal annars með tilliti til mikils útflutnings inn á Evru-svæðið.

Ástæða til að endurmeta aðildarviðræður að ESB

Bjarni fór yfir sjónarmið Sjálfstæðismanna gagnvart aðild Íslands að ESB og hagsmuni þjóðarinnar sem felast í umráðarétti yfir sjávarútvegsauðlindum sínum. Bjarni telur að nú sé komin upp ástæða til þess að endurmeta aðildarviðræður að ESB. Sagði hann marga þeirrar skoðunar að nú þegar fjármálakerfið, sem öflug grunnstoð atvinnulífsins, væri hrunið myndi sjávarútvegurinn verða enn mikilvægari fyrir þjóðarbúið en ella og þar með væri mikilvægt að landið hefði yfirráðarétt yfir þessum auðlindum.

Bjarni benti á að erfiðlega hefði gengið að fá erlent fjármagn inn í uppbyggingu atvinnulífsins hérlendis, með örfáum undantekningum. Sagðist hann telja að upptöku annars gjaldmiðils myndi frekar stuðla að því að erlendir fjárfestar væru reiðubúnir að fjárfesta í íslensk fyrirtæki.

Önnur lönd glíma líka við kreppuna

Björn Bjarnason lagði áherslu á að við mættum við núverandi aðstæður ekki gleyma því að nágrannalönd okkar stæðu, líkt og við, frammi fyrir miklum erfiðleikum út af fjármálakrísunni. Benti hann á að við gætum enn ekki vitað hvaða áhrif fjármálakreppan myndi hafa á samstarf ríkja heims, enda sýndi sagan að allar kreppur hefðu haft miklar breytingar í för með sér.

Björn telur Ísland ekki vera að einangrast og vísaði í því samhengi á forystu Íslands á sviði orkumála og þróun sjálfbærrar orku. Hann nefndi einnig hugsanlegar opnanir á nýjum siglingarleiðum um Norðurpólinn sem gerði það að verkum að erlend lönd hefðu meiri áhuga á Íslandi og öðrum löndum á Norðurslóðum.

Áhugaverður kostur að taka einhliða upp annan gjaldmiðil

Björn sagði það mjög áhugaverðan kost að taka einhliða upp annan gjaldmiðil. Hann sagði liggja alveg skýrt fyrir hverjir séu kostir og hverjir gallar inngöngu í ESB. Sagði hann ljóst að ekki væri hægt að veita Íslendingum undanþágur til frambúðar, enda væru þær þess eðlis að Evrópusambandsdómstóllinn telji sig geta afnumið þær hvenær sem honum þóknast. „Þannig að það er mjög einkennilegt að nálgast aðildarumræðunni að ESB á því að við getum byggt hana á undanþágum,“ sagði Björn.

Björn sagði umhugsunarvert að Íslendingar hefðu fram að þessu ekki nýtt sér þær leiðir sem þjóðin hefði til að koma sérstöðu sinni á framfæri innan Evrópusamstarfsins. Sagði hann ekkert hægt að fullyrða um það að Íslendinga yrðu betur settir og hefðu meiri möguleika á að láta rödd sína heyrast ef Ísland væri aðili að ESB.

„En auðvitað kann það að vera að einhverjir telja að okkur sé nauðugur einn kostur að skríða inn í ESB vegna þeirra aðstæðna sem nú ríkja. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar,“ sagði Björn.

Agaleysi hefur ríkt í ríkisfjármálum

Í umræðum að framsögum loknum sagði Bjarni ljóst að mikið agaleysi hefði ríkt í ríkisfjármálum hérlendis síðustu misseri. „Það kann vel að vera að hin þröngu ytri skilyrði sem við þyrftum að undirgangast til þess að geta gengið í myntbandalagið myndi reynast okkur heilladrjúg til langframa,“ sagði Bjarni. Benti hann á að sennilegt myndi ekkert Evrópuland uppfylla evru-kröfur ef þær ættu að taka upp gjaldmiðilinn í dag.

Björn og Bjarni voru spurðir hvort þeir teldu ekki ákveðna hættu á því að Sjálfstæðisflokkurinn myndi klofna í þeirri umræðu um ESB-aðild sem framundan væri. Björn sagði umræðuna vera í lýðræðislegum farvegi og að menn skyldu spyrja að leikslokum. Nær allir þeir fundargestir sem til máls tóku á fundinum lýsti mikilli andstöðu við aðild Íslands að ESB. 

Bjarni sagði eitt helsta vandamálið að innistæðutryggingasjóðir Evrópulandanna væru ekki samtengdir á sama tíma og löndin væru með sama gjaldmiðilinn og opna markaði.

Einn fyrirspyrjenda spurði hvort ástæða væri fyrir Ísland til þess að líta sér nær og leita eftir auknu samstarfi við t.d. Kanada í bankamálum. Aðrir fundargestir lýstu furðu sinni á því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu komið að því að samþykja ný gjaldeyrislög sem fælu það í sér að erlendir fjárfestir geti ekki komið með fjármagn inn í landið.

Björn og Bjarni sögðu lögin hafa verið nauðsynleg vegna stöðu krónunnar og að lagasetningin væri eitt af mörgum óþægilegum skrefum sem stjórnmálamenn þyrftu að taka vegna þeirrar stöðu sem upp væri komin í efnahagslífi landsins. Tóku þeir fram að auðvitað yrði að laga fyrrgreinda annmarka á lögunum. 

Björn ítrekaði í umræðunum andstöðu sína gegn aðild Íslands að ESB. Tók hann fram að þeir atburðir sem gerst hefði síðustu vikur hefðu ef eitthvað styrkt hann í þeirri stöðu að ekki væri heppilegasta lausnin að ganga inn í ESB. Spurður hvort ástæða væri til þess að styrkja tengslin í staðinn frekar við Noreg sagði Björn auðvitað mikilvægt að hafa gott samstarf við Noreg, en hins vegar væri Norðmenn á sama tíma í beinni samkeppni við okkur á sviði sjávarútvegsmála og því ætti að varast of náið samstarf. 

Hann sagði það miklu minna mál að taka upp annan gjaldmiðil en að ganga inn í ESB. Sagðist hann sannfærður um að það væri miklu minna tilfinningamál en margir teldu að skipta krónunni út fyrir t.d. dollar eða evru. 

Björn Bjarnason.
Björn Bjarnason.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert