Svipmynd: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Nýjum formanni fagnað.
Nýjum formanni fagnað. Árni Sæberg

Líklega hefur enginn stjórnmálamaður í Íslandssögunni stigið eins hratt og óvænt inn í hið pólitíska sviðsljós og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, nýkjörinn formaður Framsóknarflokksins. Reyndar má segja að áhöld séu um hvort hægt sé að kalla hann stjórnmálamann, svo nýbakaður er hann enda ferillinn ekki nema rétt mánaðar gamall.

En þrátt fyrir reynsluleysið hefur hann háð hildi tvo á stjórnmálasviðinu og haft betur í báðum - fundi framsóknarfélaganna í Reykjavík sem valdi fulltrúa á flokksþingið og á flokksþinginu sjálfu sem valdi hann óvænt en örugglega nýjan formann Framsóknarflokksins.

En hver er hann þessi nýi formaður nýrrar og umbreyttrar Framsóknar? Sigmundur Davíð er fæddur 12. mars 1975 og er því í fiskamerkinu. Fyrir þá sem telja mark takandi á stjörnumerkjunum segir svo um fiskana á stjörnuspeki.is:

„Fiskurinn er í innsta eðli sínu næm tilfinningavera. Hann er breytilegt vatnsmerki og getur því tjáð sig á margslunginn hátt. Hann er síðasta merkið í dýrahringnum og er oft sagt að hann hafi öll önnur merki fólgin í skapgerð sinni. Fiskurinn getur því verið víðsýnn og margbrotinn, fær um að skilja ólíkt fólk og setja sig í spor annarra. Hann hefur sterka aðlögunarhæfni en einnig fjölbreytta valkosti um eigið líf. Hann er því oft fjölhæfur, en getur átt erfitt með að takmarka sig og 'fókusera' á eitt ákveðið. Hann er stórhuga.“

Vestfirskir og reykvískir stofnar

Sigmundur Davíð er elsta barna foreldra sinna, Gunnlaugs Sigmundssonar, framkvæmdastjóra Fjárfestingafélagsins Máttar, og fyrrum alþingismanns Framsóknar á Vestfjörðum, og Sigríðar Sigurbjörnsdóttur, lífeindafræðings. Þau eignuðust þrjú börn á þremur árum og yngri eru Nanna Margrét, framkvæmdastjóri Náttúrulækningabúðarinnar og kaup.is, og Sigurbjörn Magnús, viðskiptafræðingur hjá Straumi, en áður hjá Kaupþingi þar til bankinn féll. Að honum standa vestfirskir og reykvískir stofnar, föðurafinn úr Reykhólum og föðuramman úr Steingrímsfirði en móðurættin er aðallega reykvísk.

Eiginkona Sigmundar er Anna Sigurlaug Pálsdóttir, mannfræðingur og fjárfestir, dóttir Páls Samúelssonar sem löngum hefur verið kenndur við Toyota og komst í fréttirnar á síðasta ári þegar hún bauðst til að gera upp húsin umdeildu við Laugaveg 4 og 6 á eigin kostnað.

Lestrarhestur og grúskari

Fyrstu æviár Sigmundar voru foreldrar hans löngum við nám í Bandaríkjunum, aðallega í Washington en einnig Los Angeles. Þegar heim kom fór hann í Ölduselsskóla ásamt vini sínum og bekkjarbróður Þórði Karli Einarssyni en þeir kynntust 5 ára gamlir og hafa ræktað vináttuna allt síðan. Þegar kom í framhaldsskóla skildu þó leiðir, þar sem Sigmundur fór í Menntaskólann í Reykjavík en Þórður í FB og hann starfar nú sem grafískur hönnuður á 365 miðlum. Þórður lýsir Sigmundi sem afar „indælum manni og góðum vini“.

Þegar á unglingsárin kom og Þórður og jafnaldrar voru uppteknir af skemmtanalífinu, tók Sigmundur lítinn þátt í því, hélt sig heima og las mikið. Fleiri lýsa honum sem lestrarhesti og grúskara - „og á þessum árum strax var hægt að fletta upp í Sigmundi eins og alfræðiriti,“ segir Þórður Karl. Íþróttaáhugamaður er hann hins vegar enginn, segir Þórður - „það er í mesta lagi að hann skreppi stöku sinnum í ræktina.“

Menntaskólaáranna naut Sigmundur Davíð til fulls, reyndar svo að eftir stúdentsprófið og fyrsta veturinn í háskóla gerði hann sér það að leik að mæta í tíma í 6. bekk í MR, „aðallega til að kanna hversu lengi kennarar og samnemendur áttuðu sig á því að hann ætti ekki heima þarna,“ segir Gunnlaugur faðir hans og bætir við: „Þetta entist í viku.“

Í háskólanum hér heima tók Sigmundur viðskiptafræðina sem aðalgrein en sótti einnig tíma í fjölmiðlafræði og stjórnmálafræði. Fljótlega fór hann svo að starfa sem fréttamaður hjá Sjónvarpinu og í Kastljósinu seinna meir. Á fréttastofunni var Elín Hirst yfirmaður hans og segir hann hafa verið „sérstaklega skemmtilegan og frjóan starfsmann. Hann starfaði hjá okkur á fréttastofunni mörg sumur, var traustur og góður starfsmaður, hrókur alls fagnaðar og í alla staði skemmtilegur vinnufélagi“ Hins vegar sá Elín hann aldrei fyrir sér sem stjórnmálamann, hvað þá formann Framsóknarflokksins. „Það kom mér algjörlega á óvart.“

Eftir útskrift í Háskóla Íslands hélt Sigmundur til háskólanáms í Moskvu í Rússlandi með það fyrir augum að leggja stund á hagfræði, þ.e. að skoða umbreytingarnar frá hagkerfum hinna föllnu Sovétríkja yfir í opið hagkerfi. Það leiddi hann síðan áfram yfir til háskólaborgarinnar Oxford í Englandi til að halda áfram að sinna þessum fræðum, reyndar með millilendingu í stjórnmálafræði í Kaupmannahöfn í eitt ár. En þegar hann tók til að rýna aftur í umbreytingarnar í austanverðri álfunni æxluðust málin þannig að hann fór að skoða meira hvaða áhrif umbreytingarnar hefði haft á borgir á þessum slóðum og þar með á skipulag þeirra.

Það voru innlegg Sigmundar Davíðs í skipulagsumræðuna hér heima fyrir sem urðu til þess að beina kastljósinu að honum á nýjan leik, því að hann hefur þótt tala þar af mikilli yfirsýn og þekkingu. Nú standa mál svo að hann hefur lokið við að skrifa doktorsritgerð um þessi mál á sviði skipulagshagfræði og bíður þess eins að finna tíma til að verja hana fyrir Oxford-háskóla. 

Ákall að austan

Framganga hans í skipulagsumræðunni er jafnframt skýringin á því að hann er nú kominn þangað sem hann er kominn. Jónas Guðmundsson, bóndi í Hrafnabjörgum á Fljótsdalshéraði kann þá sögu:

„Þetta bar þannig að við framsóknarmenn vorum bara að fá váleg tíðindi hér á haustdögum, fyrst þetta með Bjarna Harðar og svo segir Guðni af sér formennskunni. Ég held að það hafi ekki verið liðnir nema tveir tíma frá því þegar við ákváðum fjórir að koma saman til að fara yfir málin. Við sáum að það þurfti nýja hugmyndafræði, grasrótin varð að taka til sinna ráða og leita uppi mann sem hafði ekki verið þátttakandi í þessu öllu. Ég nefndi þá nafn Sigmundar þó að ég þekkti hann ekki neitt en ég hafði fylgst með honum í sjónvarpinu, í umræðuþáttunum og sá að hann var afar glöggur og öflugur, þannig að þegar hann talaði hlustuðu aðrir.“

Í framhaldinu var haft samband við Sigmund sjálfan, sem tók þessum tilmælum ekki líklega, en féllst á að koma til fundar við Austfirðingana. Eftir fundi fyrir austan má segja að örlög Sigmundar hafi verið ráðinn. „Það var sama hvert við hringdum um landið, hugmyndin um Sigmund sem formann átt allsstaðar mikinn hljómgrunn,“ segir Jónas.

Faðir hans latti hann

Foreldrar Sigmundar hvöttu hann ekki til að fara í þennan slag, Gunnlaugur beinlínis latti hann og móðir hans sem þekkti hinn pólitíska eril frá þingmannsferli föður hans var viss um að hún væri að týna syni sínum. Gunnlaugi leist ekki á að hann henti sér svona strax í djúpu laugina og velti því upp hvort hann gæti ekki hugsað sér eitthvað annað í hinu pólitíska starfi. „En Sigmundur er valdsækinn, hann sagðist fara í þetta til að fá völd til að framkvæma og ef hann tapaði þá færi hann að gera eitthvað annað,“ segir Gunnlaugur. „En þegar hann hafði tekið þessa ákvörðun studdum við hann auðvitað með ráðum og dáð.“

Samt segist Gunnlaugur aldrei hafa átt von á því að Sigmundur sneri sér að stjórnmálum. „Ég taldi hann annað hvort myndi snúa sér að viðskiptum, eða gerast háskólakennari. Hann var líka óskaplega flinkur teiknari á yngri árum og ég átti allt eins von á því að hann yrði arkitekt. En ekki stjórnmálamaður.“

Gunnlaugur lýsir syni sínum sem manni sem sé fastur fyrir, búi yfir ríkri réttlætiskennd en afar ljúfum og dagfarsprúðum. Viðmælendur tala einnig margir hverjir um gamansemi hans og góðar gáfur. „Hann er þolgóður eins og ísbjörninn sem getur synt endalaust í ísköldum sjónum,“ segir faðir hans þegar hann er beðinn að lýsa helstu kostum hans, „ en á hinn bóginn er hann afar hlýr og þá er hann með loðfeld sem gott er að halla sér að.“

Framsóknarmenn kjósa nýjan formann á landsþinginu á sunnudag.
Framsóknarmenn kjósa nýjan formann á landsþinginu á sunnudag. mbl.is/Árni Sæberg
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ávarpar flokksþingið.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ávarpar flokksþingið. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert