Seðlabankafrumvarpið úr nefnd

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Golli

Viðskiptanefnd Alþingis hefur lokið umfjöllun sinni um seðlabankafrumvarpið svokallaða, þ.e. frumvarp um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands.  „Veigamesta breytingin í meðförum nefndarinnar, sem var staðfest í morgun, er að það verður auglýst og skipað í stöðu aðstoðarbankastjóra. Sem verður staðgengill bankastjóra,“ segir Álfheiður Ingadóttir, formaður nefndarinnar.

„Hér verður skipað í stöðu seðlabankastjóra, og reyndar þá líka aðstoðarbankastjóra, með faglegum hætti, en ekki pólitískt eins og verið hefur,“ segir Álfheiður.

Hún segir að breytingarnar séu þrenns konar. Í fyrsta lagi verði auglýst eftir umsækjendum í embættin áður en skipað verði í þau. Í öðru lagi séu gerðar hæfniskröfur sem séu rýmkaðar frá því sem var í upphaflega frumvarpinu. Í þriðja lagi sé gert ráð fyrir því að forsætisráðherra skipi þriggja manna nefnd sem eigi að meta hæfi umsækjenda. 

Álfheiður segir að sjálfstæðismenn í nefndinni hafi skilað séráliti. „Þeir eiga eins og aðrir nefndarmenn töluvert í þeim breytingum sem gerðar hafa verið á frumvarpinu,“ segir Álfheiður í samtali við mbl.is.

 „Það verður úr þessu miklu betri seðlabanki með þeim breytingum sem hér eru gerðar á lögum um seðlabankann,“ segir hún.

Önnur umræða um frumvarpið mun fara fram á Alþingi á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert