Leggur til breytingar á listamannalaunum

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun frumvarp til laga um úthlutun listamannalauna. Miðar frumvarpið að því að fjölga þeim mánuðum sem listamönnum standa til boða, úr 1.200 í 1.600, á þremur árum. Hins vegar verði launin ekki hækkuð.

Að sögn Katrínar eru til ónýttar heimildir hjá menntamálaráðuneytinu til þess að standa straum að kostnaðinum sem þessu fylgir að mestu. Staða flestra listamanna sé mjög erfið um þessar mundir enda fáir bakhjarlar lista með bolmagn til þess að styðja við bakið á þeim. 

Það hefur lengi verið rætt um að bæði fjölga listamönnum sem fá úthlutað starfslaunum og hækka launin sem þeir fá greidd, segir Katrín en eins og staðan er í dag þá sé ekki hægt að hækka þá fjárhæð sem hver listamaður fær greidda á mánuði. „Ég hef verið að leita leiða til þess fjölga  þeim listamönnum sem eru á starfslaunum í ljósi þess atvinnuástands sem ríkir og bakhjarlar listamanna halda að sér höndum í ljósi aðstæðna," segir Katrín í samtali við mbl.is.

Hún segir að nú séu mánaðarlaunin 1.200 sem skiptist á allar listgreinar en stefnt sé að því að fjölga þeim í 1.600 á þremur árum. Það sé höndum stjórnar listamannalauna að ákveða hvernig viðbótinni verður skipt á milli listgreina. Á sama tíma leggur Katrín til að breytingar verði gerðar á flokkum listamannalauna og nýjum flokkum bætt við um leið og meira vald verður fært til faglegra nefnda sem sjá um úthlutun listamannalauna á hverju ári. Nýir flokkar listamannalauna eru samkvæmt frumvarpinu, launasjóður sviðslista, launasjóður tónlistarflytjenda og launasjóður hönnuða sem er nýr sjóður.

Katrín segir að frumvarpið verði nú sent til þingflokka stjórnarflokkanna og vonast hún til þess að hægt verði að afgreiða frumvarpið fyrir þinglok í vor. 

Í síðasta mánuði var úthlutað starfslaunum listamanna fyrir árið í ár og ef frumvarpið verður að lögum þá gilda þau um næstu úthlutun, það er að ári liðnu. Nú er úthlutað úr fjórum sjóðum: Launasjóði rithöfunda, Launasjóði myndlistarmanna, Tónskáldasjóði og Listasjóði. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert