Strandlengjan hæf til sjóbaða

Sjóböð í Nauthólsvík njóta aukinna vinsælda.
Sjóböð í Nauthólsvík njóta aukinna vinsælda. Ragnar Axelsson

Strandlengja Reykjavíkur er hrein og hæf sem útivistarsvæði og til að böðunar, samkvæmt niðurstöðum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem vaktar strandsjóinn umhverfis borgina.

Í frétt á heimasíðu Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkur segir að ellefu staðir sem líklegir eru til útivistar séu vaktaðir frá apríl til október ár hvert og sýni tekin til að kanna saurkólígerlamengun.

Segir að helsta uppspretta mengunar við ströndina sé ofanvatn, yfirföll dælustöðva, rangar tengingar skólplagna, náttúrlegur uppruni – fuglar og dýr, losun skólps frá skipum og smábátum. „Ylströndin í Nauthólsvík er sérstaklega vöktuð bæði af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Íþrótta- og tómstundaráði, sem er rekstraraðili strandarinnar. Frá árinu 2003 hefur ylströndin skartað bláfánanum sem er tákn um það að umhverfismál við ströndina séu í góðu lagi. Niðurstöður bæði Heilbrigðiseftirlitsins og ÍTR sýna að ylströndin í Nauthólsvík hentar vel til sjóbaða."

mbl.is

Bloggað um fréttina