Ögmundur hættir hjá BSRB í haust

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra
Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra mbl.is/Kristinn

„Sama hvernig þessar kosningar fara, og óháð því hverjar verða lyktir
um stjórnarsamstarf eða hugsanlegan ráðherradóm minn, þá mun ég á næsta þingi bandalagsins í haust formlega láta af formennsku í BSRB,“ segir Ögmundur Jónasson í samtali við nýjasta hefti BSRB tíðinda.

Ögmundur segir að verði framhald á stjórnarsamstarfinu yrði hann væntanlega formaður in absentia eins og hann hefur verið frá því ný ríkisstjórn tók við í byrjun febrúar.

„Frá þeim tíma hef ég ekkert komið að stjórn bandalagsins,“ sagði Ögmundur Jónasson formaður BSRB í leyfi og heilbrigðisráðherra, skömmu fyrir kosningar.

Ögmundur segir BSRB sér mjög hjartkært og það verði alltaf hluti af honum, enda drjúgur hluti af hans lífshlaupi.

„Ég hef verið óslitið í stjórn BSRB frá 1981 að undanteknum árunum sem ég var fréttaritari og þáttagerðarmaður Sjónvarpsins á Norðurlöndum upp úr miðjum 9. áratugnum og formaður hef ég verið frá 1988 eða í rúma tvo áratugi. Það hefur verið undarleg tilfinning síðustu vikurnar að sækja ekki stjórnarfundi BSRB en frá október 1988 og fram í febrúarbyrjun á þessu ári hef ég ekki misst af einum einasta stjórnarfundi.“

Þing BSRB hefur verið ákveðið 21. til 23. október.

Vefsíða BSRB

mbl.is

Bloggað um fréttina