Nýjan sáttmála um stöðugleika

Gylfi Arnbjörnsson flytur ávarp á Austurvelli.
Gylfi Arnbjörnsson flytur ávarp á Austurvelli. mbl.is/Kristinn

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, flutti ávarp á baráttusamkomu verkalýðsins á Austurvelli í dag. Sagði hann að nú þyrftu Íslendingar að hafa þann kjark sem þarf til að leggja grunn að réttlátu þjóðfélagi komandi kynslóða. Hollt væri að minna á þær fórnir sem launafólk hefur fært og þann árangur sem barátta verkalýðshreyfingarinnar hefur skilað.

Ekki mætti gleyma því að föst laun, hvíldartími, frídagar, sumarleyfi, fæðingarorlof, mannsæmandi aðbúnaður, atvinnuleysistryggingar og almannatryggingar væru ekki sjálfsögð réttindi. Þau hofi ekki orðið til fyrir frumkvæði stjórnvalda, heldur fyrir baráttu launafólks, foreldra vinnandi fólks í dag, og foreldra þeirra.

Gylfi gerði efnahagsvandann líka að umtalsefni. Hann sagði ASÍ hafa varað við því að efnahagsstefna stjórnvalda og Seðlabanka myndi leiða til kollsteypu með mikilli verðbólgu og atvinnuleysi. ,,Þeir stjórnmálaflokkar sem stóðu fyrir þeirri stefnu bera í raun ábyrgð á því að hafa rofið þjóðarsáttina," sagði Gylfi.

Gylfi sagði aðila vinnumarkaðarins sammála um að tvennt þurfi að gerast. Gera verði nýjan sáttmála um forsendur varanlegs stöðugleika í hagkerfinu, en þar að auki verði ríkið að axla sína ábyrgð á þróun efnahagsmála, jafnvel þótt það kunni að kosta vinsældir stjórnmálamanna og flokka til skemmri tíma. ,,Við hjá ASÍ erum tilbúin í þessa vinnu," sagði hann.

Hann sagði líka mikilvægt að fara í aðildarviðræður við ESB sem fyrst og að þjóðin yrði að fá að taka afstöðu til þess máls, en hann teldi sjálfur að þetta yrði mikilvægt skref í því að lækka matvælaverð, lækka vexti og verðbólgu og koma á stöðugleika í gengismálum.

Gylfi sagði einnig að þjóðin hefði verk að vinna. Framundan væri varnarbarátta verkalýðsins í því að verja árangurinn sem þegar hefur náðst og að sækja fram til að byggja réttlátt samfélag þar sem komið er fram við alla af sanngirni og virðingu. Mikilvægt væri að þjóðin stæði saman sem órofa heild, en í henni byggi kraftur, þrek og þor. Ef rétt væri haldið á málum gætu Íslendingar risið hratt aftur upp úr kreppunni, sterkari en nokkru sinni fyrr.

Hluti fundarmanna baulaði á Gylfa allan tímann á meðan hann talaði, gerði hróp og köll og barði í búsáhöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina