Vilja að byggingu Tónlistarhúss verði hætt

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna fagnar því að rætt sé um stöðvun á byggingu Tónlistar- og ráðstefnuhúss við Reykjavíkurhöfn. Stjórnin tekur undir ummæli þeirra þingmanna sem telja að hætta eigi við byggingu þess.

Í ályktun stjórnar SUS kemur fram að sambandið lagðist alfarið gegn því á sínum tíma að ráðist yrði í þessar framkvæmd m.a. annars á þeim forsendum að illa væri farið með skattfé að ráðast í jafn dýrt verkefni og áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá var afgangur á fjárlögum.

„Líkt og svo oft áður þegar hið opinbera hefur ráðist í framkvæmdir, er nú ljóst að kostnaðaráætlanir standast ekki og líkur eru á að kostnaðurinn aukist enn meir. Á sama tíma hefur fjárhagsstaða ríkisins og Reykjavíkurborgar, snarversnað og ljóst er að ráðast þarf í mikla útgjaldalækkun á báðum stöðum. Stjórn SUS telur það almenna skynsemi að byrja á því að skera niður það bruðl og þá óráðsíu sem einkennt hefur þessa framkvæmd."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert