Grindvíkingar geri ráðstafanir á heimilum

Grindavík.
Grindavík. www.mats.is

Almannavarnarnefnd Grindavíkurbæjar kom saman kl. 17 í dag til þess að taka stöðuna vegna jarðskjálfta sem verið hafa síðasta sólarhringinn. Fimm mínútum eftir að fundurinn hófst varð jarðskjálfti upp á 3,9 á Richter. Almannavarnarnefnd mun áfram fylgjast grannt með gangi mála og senda frá sér nýjar upplýsingar um leið og þær liggja fyrir, segir á vef bæjarins.

Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, bæjarstjóri í Grindavík, segir fundinn hafa verið til að samræma upplýsingar. Hann hafi verið fyrirbyggjandi, en ekki hafi verið settur í gang neinn viðbúnaður hjá bænum. Hún mælist til þess að  almenningur í bænum sé meðvitaður um ástandið og geri fyrirbyggjandi aðgerðir á sínum heimilum, til að hindra tjón ef frekari skjálftar verða. Hún kveðst ekki hafa heyrt af neinu tjóni á innanstokksmunum í bænum.

Hún segir ástæðulaust að óttast ástandið. Rólegt yfirbragð sé á bænum og lífið gangi sinn vanagang hjá bæjarbúum.

mbl.is

Bloggað um fréttina