Dýrasta verkið

Mountain er stór ljósmynd, vel á annan metra á breidd. …
Mountain er stór ljósmynd, vel á annan metra á breidd. Myndin er skrásetning á gjörningi listamannsins.

Listasafn Íslands hefur gengið frá kaupum á verki eftir Sigurð Guðmundsson, Mountain. Um er að ræða ljósmynd af einum af gjörningum listamannsins frá upphafi níunda áratugarins. Kaupverðið er tíu milljónir, og segir Halldór Björn Runólfsson að hærra verð hafi safnið ekki greitt fyrir verk til þessa. Það var i8 Gallerí sem seldi Listasafninu verkið.

„Þetta er eitt af allra merkilegustu verkum Sigurðar, í raun toppurinn á hans ferli og hiklaust eitt af helstu verkum íslenskrar samtímalistar á síðustu öld,“ segir Halldór, spurður af hverju það hafi verið ráðist í þessi kaup.

„Okkur hefur bráðvantað sambærileg verk í safnið, verk sem eru til þess fallin að stoppa í ákveðin göt sem eru í safneigninni, verk sem verða að vera til hér.“

Halldór er spurður að því hvort honum finnist hann nokkuð hafa gengið fulldjarflega fram, en safnið hefur úr átján milljónum að moða til verkakaupa og því ljóst að nú er búið að ganga talsvert á þá upphæð.

„Persónulega finnst mér þetta ekki djarft. En jú, vissulega er þetta dýrt. En við fengum þetta á góðum kjörum og greiðslan verður tvískipt, þar sem við nýtum fimm milljónir úr fjárframlagi þessa árs og svo aðrar fimm úr fjárframlagi þess næsta.“

Sú gagnrýni hefur heyrst að tíu milljónir fyrir ljósmynd sé mikið fé. Halldór blæs á slíkt, og segir það gamaldags hugsunarhátt.

„Og ef menn vilja hengja sig í slíkt, þá gleymist það að Sigurður leit ekki á þessar ljósmyndir sem fjölföldunarmiðil. Hann gerði sér því far um að eyðileggja plötuna, eyðileggja „masterinn“ þannig að við erum með einstakt verk í höndunum.“

Á sínum tíma var mikið rætt um það er Bera Nordal gekkst fyrir kaupum á annars konar fjalltengdu verki, nefnilega Gullfjöllum Svavars Guðnasonar. Fyrir það verk voru greiddar 3,3 milljónir króna árið 1989.

„Á þeim tíma hafði fólk einfaldlega ekki séð aðra eins prísa áður. En jú, ég fullyrði að Mountain er dýrasta verk sem safnið hefur keypt til þessa. Málið er nefnilega það að við erum farin að höndla með verk í alþjóðlegu samhengi í æ ríkari mæli. Íslenskir listamenn eru farnir að tengjast meir og betur inn í hinn alþjóðlega heim listarinnar og við það hækka verðin á verkunum. Ef við ætlum að vera samkeppnisfær á þessu sviði, ef við ætlum ekki að missa merkilega íslenska myndlist úr landi, þá verðum við að borga. Svo einfalt er það. Þetta er afleiðingin af þessari alþjóðavæðingu.“

Á toppnum

Fullur titill á verki Sigurðar er Mountain (1980 – 1982). Þau ljósmyndaverk sem listamaðurinn vann á þessu tímabili eru hans þekktustu og að margra mati náði Sigurður ákveðnum hápunkti með Mountain.

Sigurður er einn af hinum upprunalegu SÚM-urum og hefur ætíð valið sér þann listmiðil sem hæfir því efni sem hann er að fjalla um hverju sinni. Ljósmyndaverkin eru í raun skrásetning á gjörningum listmannsins en hugmyndin að baki Mountain er viss endursköpun á kjörum og tilvist verkamannsins, en Sigurður liggur undir hrúgaldi af slitnum skóm, bókum og brauði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »