Ólíklegt að höft á unga ökumenn skili árangri

Lögregla við umferðareftirlit við Sæbraut. Fólkið á myndinni tengist fréttinni …
Lögregla við umferðareftirlit við Sæbraut. Fólkið á myndinni tengist fréttinni ekki á neinn hátt

Stjórn Heimdallar, félaga ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, telur ólíklegt að takmarkanir á farþegafjölda hjá ökumönnum yngri en 20 ára á tilteknum tímum, skili tilætluðum árangri. Heimdallur segir reglurnar bera vott um virðingarleysi og forræðishyggju gagnvart ungu fólki. Stjórn Heimdallar leggur til að áfengiskaupaaldur verði lækkaður í 18 ár, samhliða hækkun bílprófsaldurs.

Í ályktun stjórnar Heimdallar eru settar fram athugasemdir við ný umferðarlög. Stjórnin gerir athugasemdir við takmarkanir á farþegafjölda hjá ungum ökumönnum á tilteknum tíma.

Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að ökumönnum undir 20 ára aldri sé óheimilt að aka með fleiri en einn farþega á nánar tilgreindum tímum sólarhringsins á sérstökum dögum vikunnar, nánar tiltekið frá kl. 23 á föstudegi til kl. 9 að morgni laugardags og frá kl. 23 á laugardegi til kl. 9 að morgni sunnudags.

„Félagið telur þessar reglur ekki aðeins óþarflega flóknar heldur einnig ólíklegar til að skila tilætluðum árangri í tilraunum til að fækka slysum í umferðinni, sem virðist vera tilgangur þessara breytinga,“ segir í ályktun stjórnar Heimdallar.

Stjórnin segir framfylgd laganna verulega flókna í framkvæmd og telur að tíma lögreglunnar og fjármunum skattgreiðenda sé betur eytt í önnur verkefni en að telja farþega í bílum og kanna aldur ökumanna.

„Þessi lagabreytingin ber vott um gífurlegt virðingarleysi og forræðishyggju gagnvart ungu fólki. Það er mikið áhyggjuefni að núverandi ríkisstjórn finnst í lagi að takmarka með þessum hætti réttindi þeim yfirgnæfandi fjölda ungmenna sem ávallt fylgir lögum við akstur og gefa lögreglunni heimildir til að áreita það til að koma í veg fyrir háttsemi nokkurra svartra sauða á meðal þeirra.“

Í drögum að frumvarpi til nýrra umferðarlaga er lagt til að bílprófsaldur verði hækkaður í 18 ár í áföngum. Í rökstuðningi fyrir þessu er m.a. vísað til þess að einstaklingar verði lögráða við 18 ára aldur.

„Stjórn Heimdallar leggur til, verði þessi breyting samþykkt, að önnur réttindi fylgi þessu fordæmi og að áfengisaldurinn verði lækkaður niður í 18 ára sjálfræðisaldur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert