Bagalegt ef fyrirtaka AGS tefst

Fjármálaráðherra segist vonast til að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS)muni ræða málefni Íslands og endurskoðun efnahagsáætlunarinnar á fundi sínum á mánudag. Allt sé klárt af hálfu íslenskra stjórnvalda. Það yrði bagalegt ef fyrirtaka málsins myndi frestast. Það skýrist væntanlega á næstu klukkutímum eða sólarhringum hvort það gerist.

„Eins og stendur þá vonum við enn að fyrirtektin geti átt sér stað. Eitt er víst, og það er það, að það er allt klárt af hálfu íslenskra stjórnvalda. Og það höfum við fengið staðfest hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Við höfum náð að uppfylla öll þau skilyrði sem reiknað var með að þyrftu að vera til staðar til þess að sjóðurinn gæti tekið málið fyrir. Þannig að það verður þá eitthvað annað en það sem stendur upp á íslensk stjórnvöld sem kæmi til með að tefja fyrirtöku málsins,“ segir Steingrímur.

„Það eru þrír dagar til stefnu í byrjun ágúst. Ef að það næst ekki fyrir þann tíma þá kemur hlé hjá sjóðnum fram undir lok ágúst. Þannig að það verður þá mjög bagalegur dráttur á öllu okkar prógrammi, ef að sú verður niðurstaðan,“ segir Steingrímur ennfremur.

Aðspurður segir hann málið vera í mjög viðkvæmri stöðu. „Við skulum bara sjá hvað verður á næstu klukkutímum eða sólarhringum.“

 Samkvæmt upphaflegu áætluninni frá því í nóvember 2008 var gert ráð fyrir að fyrstu tvær endurskoðanirnar og greiðslur tengdar þeim færu fram í febrúar og maí á þessu ári. Fyrirtaka sjóðsins á fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunarinnar hefur tafist ítrekað þar sem ekki höfðu öll skilyrði til fyrirtöku verið uppfyllt í tæka tíð.

Í Hagsjá hagdeildar Landsbankans segir að nú hafi dregið til tíðinda þar sem samkomulag stjórnvalda við skilanefndir bankanna þriggja var kynnt í síðustu viku auk þess sem skýrsla um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009-2013 var lögð fyrir Alþingi í lok júní.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert