Sparkað í höfuð lögreglumanns

Lögreglan á vettvangi nú síðdegis.
Lögreglan á vettvangi nú síðdegis. mbl.is/Jakob Fannar

Sparkað var í höfuð lögreglumanns og félagi hans var sleginn með fötu, sem var full af málningu, í höfuðið þegar lögreglan leysti upp mótmæli við iðnaðarráðuneytið síðdegis. Að sögn varðstjóra voru fjórir handteknir, tvær konur og tveir karlar. Lögreglumennirnir eru ekki alvarlega meiddir.

Um 20 manna hópur mótmælenda, sem eru sagðir tengjast samtökunum Saving Iceland, söfnuðust saman fyrir framan iðnaðarráðuneytið um kl. 16:30 í dag.

Grænu skyri eða málningu var slett á húsið og bifreið iðnaðarráðherra. Verið var að mótmæla undirritun fjárfestingarsamnings vegna álvers Norðuráls í Helguvík, sem fór fram í ráðuneytinu á sama tíma. Lögreglan kveðst ekki hafa verið með neinn sérstakan viðbúnað vegna undirskriftarinnar. Kallað hafi verið eftir aðstoð og lögreglumenn hafi brugðist við.

Lögreglan segir árásarmennirnir hafi verið handteknir og að þeir verði yfirheyrðir í kvöld. Þeim verður væntanlega sleppt að lokinni skýrslutöku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert