Ásakanir Saving Iceland ekki svara verðar

mbl.is/Heiddi

„Þetta eru fráleitir frasar og ekki svaraverðir,“ segir Jón H. B. Snorrason, aðstoðaryfirlögregluþjónn og staðgengill lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins um ásakanir Saving Iceland um meint harðræði lögreglu gegn mótmælendum í gær.

Í yfirlýsingu sem Saving Iceland sendi frá sér í nótt sakar hreyfingin lögreglu um harkalegt ofbeldi og rógburð, og fjölmiðla fyrir einhliða og villandi fréttaflutning af mótmælum við Iðnaðarráðuneytið og lögreglustöðina við Hverfisgötu í gær.

Fimm voru handtekin við iðnaðarráðuneytið vegna brota á lögreglusamþykkt og tveir úr hópi þeirra sem söfnuðust saman við lögreglustöðina í gærkvöld, voru handteknir fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu.

Mótmælendur segja að lögregla hafi beitt miklu og óþörfu ofbeldi og slasað mótmælendur. Jón H. Snorrason vísar þessu á bug og segir lögreglumenn í umræddri aðgerð ekki hafa farið offari.

„Síður en svo. Menn létu þetta yfir sig ganga í fleiri klukkutíma. Þetta er mikið verkefni að þurfa að eiga við fólk sem er ósátt við stjórnvöld. Þetta truflar okkar þjónustu við almenna borgara. Það er ævinlega töluvert af verkefnum á föstudags- og laugardagskvöldum og mörg verkefnanna krefjast þess að þeim sé sinnt fljótt og vel. Þetta kom þó ekki að sök í gær en batt töluvert af okkar mannskap á annatíma,“ segir Jón H. B. Snorrason.

Boðið að gangast undir sátt 

Skýrslur voru teknar af sjömenningunum og þeim boðið að gangast undir sekt fyrir brot á lögreglusamþykkt og fyrir mótþróa við lögreglu. Sjömenningunum var sleppt úr haldi á fimmta tímanum í nótt.

Samkvæmt leiðbeiningum ríkissaksóknara um brot sem ljúka má með lögreglustjórasátt, varðar það sekt frá 10 þúsund krónum upp í 500 þúsund krónur að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu. Fyrir brot gegn lögreglusamþykkt má ákvarða sekt upp á 10 til 50 þúsund krónur. Sektarfjárhæðir ákvarðast eftir eðli og umfangi brota.

Fólkið hefur 30 daga umþóttunartíma til að ákveða hvort það gengst við lögreglustjórasáttinni og jafnframt að ganga frá greiðslu. Ef sáttinni er hafnað fer mál viðkomandi væntanlega í ákæruferli.

Saksóknara að skoða ofbeldi mótmælenda í garð lögreglu

Að sögn lögreglumanna og sjónarvotta var sparkað í höfuð lögreglumanns þegar lögreglan leysti upp mótmæli við iðnaðarráðuneytið í gær. Þá var annar lögreglumaður sleginn í höfuðið með fötu, sem var full af málningu. Þeir hlutu ekki alvarlega áverka.

„Atburðarrásin liggur nokkuð ljós fyrir í þessum tilvikum en slík mál fara til ríkissaksóknara. Mestu máli skiptir að menn sluppu betur en á horfðist,“ segir Jón H. B. Snorrason.

Engin sönnunargögn

Talsmenn Saving Iceland segja að ofangreindar sakir eigi ekki við nein rök að styðjast.

„Ekkert myndefni eða önnur sönnunargögn sýna fram á að Saving Iceland hafi gert það sem fjölmiðlar staðhæfa. Það virðist sem orð lögreglunnar, auk afar vefengjanlegrar frásagnar eins sjónarvotts, um atburði dagsins nægi fjölmiðlum til þess að birta það sem þeir álíta rétta umfjöllun um málið. Það er eðlilegt að fjölmiðlar tali við alla sem að málinu koma en þegar orð lögreglunnar eru notuð á þann veg að um heilagan sannleika sé að ræða, er óumflýjanlegt að spyrja sig fyrir hagsmuni hverra fjölmiðlar starfa,“ segir í yfirlýsingu Saving Iceland frá í nótt.

Þá segir í yfirlýsingunni að það sé ekki ósanngjörn krafa af hálfu Saving Iceland að sjónarmið samtakanna komist til almennings og að notast verði við frásögn Saving Iceland og sönnunargögn í frekari fréttaumfjöllunum.

Samtökin sendu frá sér rúmlega tveggja mínútna myndbandsbút sem sýnir handtöku eins mótmælanda. Myndskeiðið er klippt og hljóðlaust. Fréttavefur mbl.is hefur óskað eftir því við Saving iceland að fá aðgang að myndbandsupptökunni til að birta hana en svar hafði ekki borist við beiðninni.

Myndbandsbútur Saving Iceland

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert