Fangelsi fyrir kynferðisbrot

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í 3 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn stúlkubarni. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða stúlkunni 300 þúsund krónur í bætur auk málskostnaðar.

Maðurinn var dæmdur fyrir að hafa árið 2007, þegar stúlkan var 12 ára, sett höndina inn fyrir buxnastreng hennar og reynt að losa um belti á buxunum. Þá var hann einnig dæmdur fyrir að hafa samband við stúlkuna, hálfu ári síðar, á netinu og hvetja hana til að afklæðast og sýna sig í vefmyndavél. 

Héraðsdómur segir, að manninum hafi ekki átt að geta dulist að stúlkan var barn að aldri þegar þetta gerðist og hafi því borið, ef hann var í einhverjum vafa, að ganga úr skugga um það.  Brotið hafi beinst að líkama og kynfrelsi stúlkunnar og ásetningur ákærða einbeittur eins og sjá hafi mátt af áframhaldandi samskiptum hans við stúlkuna af kynferðislegum toga.  Þá hafi brotið haft andlegar afleiðingar í för með sér fyrir stúlkuna en fram kom það mat sálfræðings, sem ræddi við stúlkuna, að þessi reynsla hafi haft mikil áhrif á hana og hún komi til með að þurfa á viðtölum að halda í framtíðinni.

Maðurinn hefur áður hlotið dóma, aðallega fyrir umferðarlagabrot en einnig árs fangelsisdóm fyrir að valda með vítaverðu gáleysi umferðarslysi á Suðurlandsvegi með þeim afleiðingum að þrítugur karlmaður og 5 ára gömul stúlka létu lífið og faðir stúlkunnar og átta ára gamall bróðir slösuðust alvarlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert