Guðmundur rekinn af Útvarpi Sögu

Guðmundur Ólafsson hagfræðingur.
Guðmundur Ólafsson hagfræðingur. mbl.is/Frikki

Guðmundi Ólafssyni hagfræðingi hefur verið sagt upp störfum hjá Útvarpi Sögu, þar sem hann hefur verið með útvarpsþætti. Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri segir í samtali við mbl.is að ákvörðunin hafi verið tekin í gær.

„Við getum ekki liðið Guðmundi það að vera ítrekað með ærumeiðandi ummæli,“ segir Arnþrúður og bætir við að mælirinn sé fullur gagnvart Guðmundi. Þá segir hún að þáttur hans hafi notið sívaxandi óvinsælda. Aðspurð segir hún að hlustendur hafi t.d. kvartað undan Guðmundi. Þessar ástæður hafi verið tilgreindar í uppsagnarbréfi sem hafi verið sent Guðmundi.

Guðmundur segir í samtali við mbl.is að hann hafi verið ritskoðaður burt af útvarpsstöðinni. „Hún [Arnþrúður] var eitthvað óánægð með þátt sem ég var með á föstudaginn. Taldi að sér vegið. Ég skil það nú ekki,“ segir Guðmundur.

Hann segir að sl. föstudagskvöld hafi staðið til að endurtaka þátt sem hann stýrði með Sigurði G. Tómassyni, en þess í stað hefði gamall þáttur með Sigurði settur í loftið. Guðmundur segir að þetta stafi af gagnrýni sinni á útvarpsstjórann, sem hafi hringt í fólk sem hefði boðist til að taka að sér börn í skammtímavistun. Arnþrúður hefði sótt að fólkinu og verið með dylgjur. „Mér fannst þetta algjör óhæfa og gerði grín að þessu á minn hátt,“ segir Guðmundur.

Guðmundur hefur verið með þætti á Útvarpi Sögu undanfarin þrjú ár með hléum.

Heimasíða Útvarps Sögu.

Heimasíða Guðmundar.

mbl.is

Bloggað um fréttina