Vægi Icesave úr öllu samhengi

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. mbl.is/Heiddi

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í kvöld að heildarskuldir hins opinbera muni nálgast 130% af vergri landsframleiðslu í lok næsta árs. Þar af séu  innlendar skuldir 70% af landsframleiðslu og erlendar skuldir um 60%.

Steingrímur sagði, að af þessum heildarskuldum væri vægi Icesave-skuldbindinganna 11% ef miðað sé við, að ekki verði greitt út úr búi Landsbankans inn á Icesave-skuldina á næsta ári og skuldbindingin standi þá í 230 milljörðum króna.

„Vægið sem þessi þáttur okkar vanda hefur fengið sem hluti af heildinni er úr öllu samhengi," sagði Steingrímur.  „Auðvitað skiptir þetta máli eins og allt hitt, sem við þurfum að takast á við, en sem betur fer er það mat aðila, að staða hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga að meðtöldum ríkisábyrgðum, er betri en menn reiknuðu með framan af árinu. Útslagið er í skuldum einkaaðila," sagði Steingrímur.  

Fram kom í máli Steingríms, að 180 milljarða eignir væru komnar inn í þrotabú Landsbankans og búist væri við 120 milljörðum að minnsta kosti á næsta ári.

Þriðja og síðasta umræða um Icesave-frumvarp fjármálaráðherra, hefur staðið yfir í dag og mun halda áfram fram á kvöld.

mbl.is