Vilja að Svavar verði kallaður fyrir

Þingmenn á Alþingi í gærkvöldi.
Þingmenn á Alþingi í gærkvöldi. mbl.is/Ómar

Formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks – auk annarra þingmanna stjórnarandstöðunnar – kröfðust þess í gærkvöldi að Svavar Gestsson, formaður íslensku Icesave-samninganefndarinnar, yrði kallaður fyrir fjárlaganefnd og skýrði ummæli sem birtast í bréfi bresku lögmannsstofunnar Mishcon de Reya til fjárlaganefndar.

Fjárlaganefnd kemur saman í dag klukkan 8 til að fjalla frekar um gögnin frá lögmannsstofunni. 

Í bréfinu segir að Svavar hafi farið fram á að leynt yrði gögnum fyrir yfirmanni sínum, Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra. Össur sagði að gott væri að fá upplýsingar um málið, en hann ætti erfitt með að trúa slíku.

Uppnám varð á þingi eftir að bréfið barst en í því segir að í skjölum frá lögmannsstofunni, sem vantar á vefsíðuna www.island.is, sé minnst á hugsanlega málshöfðun vegna aðgerða breskra stjórnvalda. Mun þá vera átt við málaferli vegna yfirtöku breska fjármálaeftirlitsins, FSA, á Heritable, breskum banka en að fullu í eigu Landsbankans. Bankinn var með tryggasta innlánasafn Landsbankans og eru eignir hans nú um 60 milljarðar króna fram yfir skuldir. Má því heita öruggt að allar kröfur á hendur honum verði greiddar að fullu.

Atriði fjarlægt úr kynningu

„Eins og við sögðum Icesave-nefndinni og fjármálaráðuneytinu um þetta leyti gæti slík málshöfðun gegn FSA [breska fjármálaeftirlitinu] verið pólitískt viðkvæm fyrir bresku ríkisstjórnina og gæti því ef til vill orðið gagnlegt tæki til að ná viðspyrnu gagnvart breskum stjórnvöldum í endanlegum samningum um Icesave,“ segir í bréfinu frá lögmannsstofunni í gær. „Þessi viðkvæma staða olli því að formaður Icesave-nefndarinnar ákvað að þetta atriði í kynningu okkar frá 26. mars 2009 yrði ekki með í seinni kynningu okkar frá 29. mars til hr. Össurar Skarphéðinssonar en hann fékk hana afhenta 31. mars á fundi í London. Þar sem formaður Icesave-nefndarinnar var skjólstæðingur okkar var það að sjálfsögðu hans að ákveða hvaða fyrirmæli við fengjum um innihald kynninganna. Urðum við og hr. [Svavar] Gestsson sammála um að meðhöndla skyldi þetta atriði málsins með geysilegri varúð og gæta algers trúnaðar þar sem það gæti dregið úr gildi hugsanlegrar viðspyrnu sem [málshöfðunin] gæti haft í för með sér í samningaviðræðum síðar við bresku stjórnina ef innihaldið læki út.“

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra staðfesti á Alþingi í gær að hann hefði ekki séð umrædd gögn fyrr en í gær. Hann tók undir með þingmönnum að óheppilegt væri hversu seint gögnin koma fram.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði það misskilning að eitthvað nýtt kæmi fram í gögnunum, sum þeirra hefðu verið opinber í marga mánuði, en undir öðrum dagsetningum. Þá breyttu þau ekki inntaki samninganna sem til afgreiðslu væru.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, benti hins vegar á að þar væri að finna nýjar upplýsingar um að íslenska ríkið hefði haft sterka lagalega stöðu til að höfða mál í Bretlandi vegna yfirtökunnar á Heritable. Það hefði ekki komið fram og hlyti að skipta máli þegar þingmenn greiddu atkvæði um frumvarpið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert