Sammála um að lágmarka ókyrrð

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon ræða við fréttamenn að …
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon ræða við fréttamenn að loknum blaðamannafundi í kvöld. Morgunblaðið / Sigurður Bogi Sigurður Bogi

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hafði orð Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands fyrir því, að hann kynnti henni ákvörðun sína í Icesave-málinu áður en hann kunngerði hana á blaðamannafundi á Bessastöðum. Niðurstaðan varð hins vegar önnur.

Forsætisráðherra og þar með ríkisstjórnin fékk upplýsingar um ákvörðun forsetans á sama tíma og aðrir landsmenn, það er í beinni útsendingu sjónvarps. „Við vissum ekki hvað forsetinn vildi gera. Við áttum auðvitað samtöl við hann, fórum yfir stöðuna og lýstum yfir áhyggjum okkar af því að hann myndi láta þetta mál fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Einnig sendum forseta gögn þar að lútandi, síðast í gærkvöldi, og hann ætlaði að ræða við mig áður en hann kynnti sína ákvörðun, en af einhverjum ástæðum gerðist það ekki,“ sagði Jóhanna við fréttamenn að loknum fundum í Ráðherrabústaðnum sem lauk á ellefta tímanum í kvöld.

Undirliggjandi tónn í fréttum erlendra fjölmiðla í dag hefur verið sá að ákvörðun forseta þýddi að Íslendingar hygðust ekki standa við skuldbindingar sínar í Icesave-málinu. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að reynt hafi verið eftir að föngum að bregðast við þeim misskilningi meðal annars með fréttatilkynningum til erlendra fréttamiðla auk heldur sem hann hafi í dag verið í viðtölum við ýmsa erlenda fjölmiðla, meðal annars breska og hollenska.

„Um leið og við vissum um ákvörðun forseta sendum við út fréttatilkynningu auk þess sem allt stjórnkerfið fór í gang til að koma hinu rétta til skila. Það sama er einnig verkefni verkefni morgundagsins: að draga úr þeim skaða sem orðspor Íslands hefur beðið og byggja trúverðugleikann upp að nýju,“ segir Steingrímur. Hann telur líklegt að tíma getið tekið að vinna lánshæfismat aftur upp að nýju.

Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur lækkað lánshæfismat íslenska ríkisins niður í ruslflokk með neikvæðum horfum. Er þetta gert í kjölfar þess að forseti Íslands synjaði Icesave-lögunum staðfestingar. „Hætt er við að tíma getið tekið að vinna lánshæfismatið aftur upp. Það er ákaflega sorglegt að það skyldi hrapa því það var lagt af stað í hina áttina. Matið var hins vegar ekki nema daginn að falla niður í ruslflokk. Núna skiptir hins vegar öllu að róa ástandið niður og á fundum okkar með aðilum vinnumarkaðarins voru allir sammála um að lágmarka ókyrrðina,“ segir Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert