200-300 á útifundi

200-300 manns eru staddir á Austurvelli á mótmælafundi Nýs Íslands …
200-300 manns eru staddir á Austurvelli á mótmælafundi Nýs Íslands og Hagsmunasamtaka heimilanna. Mbl.is/Golli

Um 200-300 manns mættu á útifund á Austurvelli í dag. Að fundinum stóðu Nýtt Ísland og Hagsmunasamtök heimilanna. Yfirskrift fundarins var „Spillinguna burt.“

Meðal ræðumanna voru Jóhannes Björn Lúðvíksson, höfundur bókarinnar Falið vald og Atli Steinn Guðmundsson, ungur fjölskyldufaðir, frá Hagsmunasamtökum heimilanna en hann hefur ákveðið að flytjast frá landinu með fjölskyldu sína vegna ástandsins og aðgerðarleysis stjórnvalda.

Í tilkynningu frá Nýja Íslandi segir að ekki hafi tekið nema 15 mínútur að bjarga fjármagnseigendum í hruninu. Hins vegar hafi fólkið sem byggir landið verið skilið eftir með stökkbreyttan höfuðstól lána og óréttlætið haldi áfram.

„Nýtt Ísland skorar á alþingismenn, ríkisstjórn og fjármagnsstofnanir að hlutskipti fólksins verði ekki bara að erfa skuldir útrásarvíkinga og tengdra aðila. Því vilja samtökin Nýtt Ísland bjóða þeim að koma með ný úrræði og leiðréttingar fyrir skuldsettar fjölskyldur.“

Jafnframt segir í tilkynningunni að landið sé nær stjórnlaust. Eignir fjölskyldna brenni upp og lánin hækki m.a. vegna stjórnleysisins. „Verði engin ný úrræði og/eða ný útspil ofangreindra aðila til leiðréttingar fyrir lántakendur munu samtökin herða mótmæli og kalla eftir frekari aðgerðum frá þjóðinni sem byggir þetta land.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert