VR snúi sér að lausnum fyrir atvinnulausa

Stjórn Nýs Íslands lýsir í tilkynningu yfir furðu á yfirlýsingum meirihluta stjórnar VR. „Þar gerir verkalýðsfélagið VR atlögu að tjáningarfrelsi, skoðunum og stefnu sem samtökin Nýtt Ísland fara fyrir,“ segir í tilkynningunni.

Athyglisvert sé að stærsta verkalýðsfélag landsins einbeiti sér að samtökunum Nýtt Íslands „í stað þess að koma skuldsettum heimilum landsins til  hjálpar og þrýsti á stjórnvöld um raunverulegar aðgerðir t.d. fyrir atvinnulausa og þá sem ekki eiga til hnífs og skeiðar.“

Í yfirlýsingu VR sem vísað er til og birtist á heimasíðu þess í gær segir að meirihluti stjórnar VR harmi „að nokkrir stjórnarmenn í félaginu tengist samtökum sem virðast m.a. hafa það á stefnuskrá sinni að leggja niður Alþingi Íslendinga. Samtök þessi, Nýtt Ísland, voru stofnuð í tengslum við kosningar í VR á síðasta ári en beina nú kröftum sínum að því að brjóta félagið niður.“

Í yfirlýsingu Nýs Íslands segir ennfremur: 

„Stjórn Nýs Íslands lýsir  furðu sinni á hátterni meirihlutar stjórnar og formanns VR á ASÍ þingi þar sem vínbarinn var opinn fram undir morgun fyrir stjórn VR þeim að kostnaðarlausu. Á meðan brenna upp eignir landsmanna og atvinnulausum fjölgar og eru þeir ca. 17.200 í dag.

Starfsemi samtakanna Nýs Íslands  hefur verið m.a. að standa fyrir friðsamlegum kröfufundum á Austurvelli í allan vetur ásamt bílalána mótmælum til stuðnings skuldsettum fjölskyldum landsins. Vert er að taka það fram að nánast ekkert hefur heyrst í verkalýðsforystunni nú 16 mánuðum eftir bankahrunið á Íslandi.“
 

mbl.is

Bloggað um fréttina