Talaði ekki um Seðlabankann

Arnold Schilder.
Arnold Schilder.

Arnold Schilder, fyrrum yfirmaður hollenska bankaeftirlitsins, nefndi ekki Seðlabanka Íslands, í framburði sínum fyrir hollenskri þingnefnd í dag, þegar hann sagði að  íslenskir kollegar sínir hefðu logið að hollenska seðlabankanum um stöðu Landsbankans árið 2008.

Hollenskir fjölmiðlar, sem fylgdust með vitnisburði Schilders fyrir nefndinni, höfðu eftir honum að Seðlabanki Íslands hefði sagt hollenska seðlabankanum ósatt haustið 2008 um stöðu íslensku bankanna.

Á vef blaðsins Het Financieele Dagblad hefur frétt um málið verið breytt og segir þar nú að íslenska fjármálaeftirlitið hafi sagt hollenska seðlabankanum ósatt um stöðu Landsbankans.

Fram hefur komið áður, að hollenski seðlabankinn var í samskiptum við Fjármálaeftirlitið í ágúst 2008 vegna Landbankans. Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, sagði á blaðamannafundi í október 2008, að hollenski seðlabankinn hefði fram á síðustu stundu fengið upplýsingar frá Íslandi um að allt væri í lagi með Icesave-reikningana. Hann hélt því einnig fram á sama fundi að seðlabankinn hefði fengið rangar upplýsingar um greiðsluþol íslensku bankanna frá Fjármálaeftirlitinu á Íslandi út septembermánuð.

Icesave-reikningar Landsbankans voru opnaðir sem útibú í Hollandi þann 29. maí 2008. Þegar þeim var lokað í október, rúmum fjórum mánuðum síðar, voru viðskiptavinir þeirra orðnir 114.136 talsins. Innstæður á reikningum þeirra voru 1.674 milljónir evra, nærri 300 milljarðar króna á núverandi gengi.

Vefur Het Financieele Dagblad

mbl.is