Ræða aðild Íslands í febrúar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun taka fyrir umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu síðar í þessum mánuði. Ef umsóknin fær jákvæðar viðtökur verður hún rædd á leiðtogafundi Evrópusambandsins í mars. Þetta kom fram á fundi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, í dag.

Jóhanna sagði að fundurinn með Barroso hefði verið efnismikill og jákvæður. Hann stóð í á aðra klukkustund. Með á fundinum var Olli Rehn, stækkunarstjóri Evrópusambandsins en hann tekur við stöðu framkvæmdastjóra efnahags- og gjaldeyrismála  innan Evrópusambandsins í næstu viku.

„Framkvæmdastjórnin tekur umsókn Íslands fyrir seinna í þessum mánuði. Ef hún fær jákvæða afgreiðslur þar fer þetta fyrir aðildarríkin og leiðtogafund væntanlega í mars,“ sagði Jóhanna. „Ég lagði mikla áherslu á að málið fengi eðlilegan framgang eins og fyrirhugað hafði verið. Ég veit auðvitað ekki hver verður niðurstaðan í framkvæmdastjórninni, en við fórum mjög hreinskiptið yfir það mál.“

Jóhanna sagði að Ísland væri búið að skila öllum þau gögnum sem Evrópusambandið hefði beðið um í sambandi við umsókn Íslands. ESB hefði ekki sett fram neina kvörtun um hvernig unnið hefði verið að umsókninni og ekkert væri því til fyrirstöðu að tekin yrði ákvörðun í málinu.

„Ég fór mjög ítarlega yfir Icesave-málið og hvernig mjög margir á Íslandi teldu að við værum fórnarlamb gallaðrar löggjafar og líka að skuldabyrðinni væri ójafnskipt á milli landanna. Ég fór yfir það hvaða áhrif þetta hefði á greiðslugetu þjóðarinnar og heildaráhrif á heimilin og atvinnulíf. Ég held að það hafi verið mjög gott að við fórum mjög ítarlega yfir þetta mál. Tilgangurinn með þessari ferð var að auka skilning á stöðu okkar og ég held að það hafi tekist.“

Jóhanna sagðist ekki geta svarað því hvort Evrópusambandið myndi hafa eitthvert frumkvæði í þessu máli. „Þeir munu meta stöðuna og það sem við fórum í gegnum. Við munum verða í sambandi í framhaldinu. Það er ýmislegt sem við ræddum um sem þeir vilja skoða.“

Jóhanna var spurð hvort við gætum fengið hagstæðari lánskjör vegna Icesave fyrir milligöngu Evrópusambandsins. „Það hefur komið fram áður, vilji þeirra til að aðstoða okkar að því er það varðar. Ég kom mjög inn á þetta á fundinum, en það varð engin niðurstaða um það á fundinum. Við sjáum svo í framhaldinu hvað út úr því kemur.“

Á fundinum var rætt um efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Ísland. „Ég sagði á fundinum að það væri ólíðandi að það væri verið að tengja endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við alls óskyld mál eins og Icesave, að ég tali nú ekki um Evrópusambandsaðild og Barroso fullvissaði mig um að það væri ekki gert af hálfu Evrópusambandsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina