Skýrslunni enn frestað

Í rannsóknarnefndinni sitja Sigríður Benediktsdóttir, Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson.
Í rannsóknarnefndinni sitja Sigríður Benediktsdóttir, Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson. Ómar Óskarsson

Rannsóknarnefnd Alþingis hafa nú borist svör frá þeim 12 einstaklingum sem veittur var kostur á að senda nefndinni athugasemdir. Þau svör og fylgigögn sem nefndinni hafa borist eru umfangsmikil eða nær 500 blaðsíður alls. Það er því ljóst að útgáfa skýrslunnar frestast um tvær til þrjár vikur. Þetta kemur fram á vef rannsóknarnefndarinnar.

Fyrst stóð til að skýrslan myndi liggja fyrir þann 1. nóvember. Síðan var henni frestað til 1. febrúar og síðan til byrjun marsmánaðar. Nú hefur henni verið frestað enn frekar og ljóst að hún verður ekki birt fyrr en eftir miðjan mars.

„Með bréfum nefndarinnar var þessum einstaklingum gefinn kostur á að gera skriflega grein fyrir afstöðu sinni til atriða sem nefndin hefði til athugunar að fjalla um í skýrslu sinni á þeim grundvelli að um hefði verið að ræða mistök eða vanrækslu af þeirra hálfu í þeirri merkingu sem þessi hugtök eru notuð í lögum um nefndina.

Þau svör og fylgigögn sem nefndinni hafa borist eru umfangsmikil eða nær 500 blaðsíður alls. Fyrir nefndinni liggur nú að fara yfir þessi svör og þau gögn sem þeim fylgdu, taka afstöðu til þeirra og ganga endanlega frá skýrslu nefndarinnar til Alþingis. Það er ljóst að þessi lokavinnsla á skýrslunni, frágangur og prentun hennar mun taka nokkurn tíma en áætlanir nefndarinnar miða við að því verði lokið eftir tvær til þrjár vikur," að því er segir á vef rannsóknarnefndarinnar.

mbl.is