Vill lög á flugumferðarstjóra

„Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að beita lagasetningu á svona aðgerðir sem koma öllum illa og skaða beinlínis þá hagsmuni sem Íslendingar sem þjóð þurfa að fullkominn vörð um í dag,“ segir Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, en hann telur að setja eigi lög á verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóra.

Aðspurður segir Kristján Þór æskilegast og eðlilegast að ríkisstjórnin hafi forgöngu um svona lagasetningu. „Hún er við stjórnvölin, en ef hún hefur ekki burði í sér til þess þá verður þetta að sjálfsögðu að koma annars staðar frá,“ segir Kristján Þór og tekur fram að hann muni þá sjálfur leggja fram slíkt lagafrumvarp. 

Nefndardagar eru hjá Alþingi út þessa viku og því kemur þing ekki saman fyrr en nk. mánudag. Að mati Kristjáns Þór væri full ástæða til þess að kalla þingið saman þegar á föstudaginn til þess að ræða þetta mál. 

Segir hann stöðuna sem upp sé komin vera fáránlega, að stétt sem telja verði til hálaunahóps grípi til skaðlegra verkfallsaðgerða á sama tíma og atvinnuleysi fari vaxandi í þjóðfélaginu og þeir sem séu á vinnumarkaði búa við miklu verri kjör en flugumferðarstjórar.

„Það eru almannahagsmunir núna að atvinnulífið í landinu gangi vel og að almenningur í landinu komist sem best af. Og þá verða þeir hópar þjóðfélagsins sem eru einna best settir launa- og afkomulega séð að sitja á sér með aðgerðir sem þessar,“  segir Kristján Þór og gagnrýnir að flugumferðarstjórar rökstyðji ríflegar launakröfur sínar með samanburð við starfsbræður sína erlendis. Bendir hann á að allar stéttir myndu koma illa út í slíkum samanburði og að eðlilegra sé að miða laun sín við sambærilega starfshópa hérlendis.

 „Við erum líka að horfa til þess að verkfallsaðgerðir í samgöngum, sérstaklega flugi, eru mjög viðkvæmar m.t.t. ferðaþjónustunnar sem gefur okkur gjaldeyri sem er það fyrirbæri í veröldinni sem við Íslendingar þurfum mest á að halda af efnislegum gæðum.  Mér með ólíkindum að svona aðgerðir skuli yfir höfuð vera stundaðar í þeirri stöðu sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir í dag,“ segir Kristján Þór. 

Kristján Þór Júlíusson
Kristján Þór Júlíusson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert