„Ein hjúskaparlög verði lögfest“

Lagt er til í frumvarpinu að lögin öðlist gildi þann …
Lagt er til í frumvarpinu að lögin öðlist gildi þann 27. júní 2010. mbl.is/Ásdís

Rétt þykir að afmá þann mun sem felst í mismunandi löggjöf vegna hjúskapar karls og konu annars vegar og staðfestingar samvistar tveggja einstaklinga. Þetta kemur fram í frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingar á hjúskaparlögum sem mælt verður fyrir eftir hádegi í dag.

Lagt er til í frumvarpinu að lögin öðlist gildi þann 27. júní 2010 en sá dagur er táknrænn þegar kemur að gildistöku laga á þessu réttarsviði. Hér er um að ræða alþjóðlegan mannréttindabaráttudag samkynhneigðra og hefur hann oftast orðið fyrir valinu þegar lögum hefur verið breytt til að bæta réttarstöðu samkynhneigðra.

Þegar lög um staðfesta samvist voru sett árið 1996 tóku þau gildi 27. júní og það sama má segja um lagabreytingarnar sem voru gerðar með lögum nr. 65/2006 og lögum nr. 55/2008. Þessi dagsetning gefur einnig nokkuð færi á að undirbúa gildistöku laganna.

Farið var fram á það við Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni að stofnunin tæki að sér að semja frumvarp til breytinga á hjúskaparlögum. Í verkefnalýsingu segir: „Nú er svo komið að rétt þykir að afmá þann mun sem felst í mismunandi löggjöf vegna hjúskapar karls og konu annars vegar og staðfestingar samvistar tveggja einstaklinga af sama kyni hins vegar, og í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram það markmið að ein hjúskaparlög verði lögfest.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert