Fólk fær að fara úr Básum

Eldgosið rétt fyrir kl. 2100 í kvöld. Myndin var tekin …
Eldgosið rétt fyrir kl. 2100 í kvöld. Myndin var tekin úr flugvél sem flaug í um 8.000 feta (2.400 m) hæð. mbl.is/Þorleifur E. Pétursson

Ákveðið hefur verið að leyfa fólki sem vill að fara úr Básum í Þórsmörk í nótt. Sérbúnir björgunarsveitabílar verða við Hvanná og lýsa upp gilið og fylgjast með vatnavöxtum í ánni, að sögn Víðis Reynissonar hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. 

Ekkert flóð er í ánni en þessi varúðarráðstöfun er gerð ef það kemur hlaup í ána. Þeir sem vilja fá að fara heim á sínum eigin bílum. Margir höfðu ráðgert að gista í Básum í nótt og fá að vera þar ef þeir vilja.

Margir voru í Básum, skála Útivistar í Þórsmörk, í kvöld. Fólki var meinað að aka út úr Þórsmörk vegna óvissu með Hvanná sem hafði vaxið. Það fékk því gistingu í Básum. Athuga átti hvort vegurinn yrði  opnaður í fyrramálið, en það hefur nú breyst eins og fyrr segir.

Mikill atgangur á gosstöðvunum

„Það var eins og maður væri kominn í stríðið í Viet Nam þarna uppi á Morinsheiði. Þar voru allt að fjórar þyrlur í einu, Landhelgisgæsluþyrlan og þrjár aðrar,“ sagði Kristinn Garðarsson, landfræðingur og kortagerðarmaður, sem varð vitni að því þegar ný gossprunga opnaðist á Fimmvörðuhálsi í kvöld.

Kristinn hafði ætlað sér að aka til Reykjavíkur í kvöld en fékk fyrirmæli um að halda kyrru fyrir.

Kristinn sagði að hann og föruneyti hans hafi tekið með sér svefnpoka og nóg nesti. Þau voru því ekki á flæðiskeri stödd. Hann taldi að á annað hundrað manns væri komið í Bása og fólk var enn að tínast niður af fjallinu um kl. 22.40. Hann sagði að stemmningin væri fín.

„Það var spurt hvort einhver væri með gítar! Það er bara fín stemmning,“ sagði Kristinn. Hann er Vestmannaeyingur og varð vitni að Heimaeyjargosinu út um svefnherbergisgluggann heima hjá sér í janúar 1973. Gosið þá var í nokkurra hundraða metra fjarlægð.

„Þetta var svolítið nær í dag,“ sagði Kristinn en hann var um 200 metra frá nýju gossprungunni þar sem hann stóð á Bröttufannarfelli. Hann sagði að fólk hafi ekki verið óttaslegið við gosstöðina.

„Mér fannst fólk ekki alveg skynja að það gæti verið af þessu hætta,“ sagði Kristinn. Hann kom að þegar sprungan var að opnast. Menn sem voru á staðnum sögðu að sprungan hafi rétt áður byrjað að opnast. Hann sagði að fyrst hafi líkt og sullast upp úr jörðinni þar sem sprungan opnaðist.

„Á meðan við stóðum þarna þá jókst þetta heilmikið. Maður sá hraunið hrúgast upp og það myndaðist pínulítill gígur. Svo hélt þetta áfram í norðvestur að mér fannst. Gosið var mest næst hinum gígnum. Það var töluvert hraunstreymi úr þessu. Á nyrðri endanum sullaðist upp eins og það kæmi undan snjónum. Þetta var alltaf aðeins að lengjast,“ sagði Kristinn.

Mikil gufa steig upp frá nyrðri enda gossprungunnar og var erfitt að greina hvað var að gerast á þeim enda. Töluverð læti voru í gosinu og jukust þau eftir því sem á leið. Kristinn sagði að gosið hafi verið að aukast þegar þau fóru niður.

„Þar sem ég stend núna, hér niður í Básum, er himininn logandi rauður þarna uppfrá,“ sagði Kristinn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina