Önnur konan fannst látin

Þyrla Landhelgisgæslunnar kemur með konurnar á Landspítalann á sjöunda tímanum.
Þyrla Landhelgisgæslunnar kemur með konurnar á Landspítalann á sjöunda tímanum. Ljósmynd/Jóhann Kristjánsson

Kona, sem fannst síðdegis við Bláfjallakvísl, var látin þegar að henni var komið. Hún var fædd 1967. Önnur kona, sem fannst á fimmta tímanum var köld og hrakin, en hún fannst í um 9 km beinni sjónlínu frá bílnum. Konurnar tvær voru fluttar með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Fossvogi. Karlmanns, sem var með þeim í för er enn leitað.

Um 120 björgunarsveitamenn frá Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu eru nú við leit að manni sem saknað er að Fjallabaki og fleiri eru á leið á staðinn. Þyrla Landhelgisgæslunnar var notuð til leitar í dag, en hún hefur hætt leit í bili samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu. Leitað er á bifreiðum, með vélsleðum, göngufólki og leitarhundum.

Leit hófst seint í gærkvöldi að tveimur konum og einum karlmanni, sem voru á ferð í bíl á páskadagskvöld. Ökumaðurinn bað um aðstoð upp úr klukkan tvö í fyrrinótt og var villtur en taldi sig vera innan við Fljótshlíð. 

Um klukkan eitt eftir miðnætti á sunnudag var bílinn kominn á aurana innan við Tröllagjá, sem er innan við Gilsá og á leiðinni að Einhyrningi. Þá gerðu lögregla og björgunarsveitir fimm tíma leit á svæðinu. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli var ökumaðurinn í símasambandi við hana alla nóttina en var rammvilltur. Hann taldi sig vera í Fljótshlíð og sá til eldgossins á Fimmvörðuhálsi en engin önnur kennileiti.

Um klukkan 6.30 í gærmorgun hringdi ökumaðurinn í lögregluna og afþakkaði aðstoð. Hann var þá búinn að losa bílinn og kvaðst vera kominn á einhvern slóða. Ættingjar fólksins fóru síðan að grennslast fyrir um það um klukkan tvö í nótt þegar ekkert fréttist af því.

Önnur konan fannst á gangi við Emstruleið, ofan við Einhyrning, um miðjan dag í dag. Hún var tekin um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar og flutt á sjúkrahús í Reykjavík. Skömmu síðar fannst bíll fólksins bensínlaus og mannlaus  í Hvanngili við Stórusúlur og skammt þar frá fannst hin konan látin.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert