Bankastyrkir í stjórnmálin

Fjallað er um styrki til stjórnamálaflokka og stjórnmálamanna í skýrslu …
Fjallað er um styrki til stjórnamálaflokka og stjórnmálamanna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Á árunum 2006-2008 styrktu viðskiptabankarnir Framsóknarflokkinn, Samfylkinguna og Sjálfstæðisflokkinn um samtals 85 milljónir króna. Sjálfstæðisflokkurinn fékk mest eða um 43 milljónir. Margir stjórnmálamenn fengu styrki til að fjármagna prófkjör.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Framsóknarflokkurinn fékk 16 milljónir í styrki frá bönkunum, mest frá Kaupþingi eða 11 milljónir. Samfylkingin fékk 24 milljónir frá bönkunum, mest 11,5 milljónir frá Kaupþingi. Sjálfstæðisflokkurinn fékk um 43 milljónir, þar af um 30 milljónir frá Landsbankanum. VG fékk ekki styrki frá bönkunum.

Í skýrslunni er haft eftir Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, að ekki sé víst að þessar upplýsingar endurspegli heildartöluna. Hann segir að Samfylkingin hafi fengið hærri styrki en flokkurinn hafi skýrt frá. Styrkirnir hafi dreifst á nokkrar kennitölur.

Styrkir til stjórnmálamanna

Í skýrslunni er birtur listi yfir stjórnmálamenn sem fengu styrki frá bönkunum til aðkosta prófkjörsbaráttu sína.

Hæsta styrkinn frá Kaupþingi fékk Björn Ingi Hrafnsson (2 milljónir) og Guðfinna S. Bjarnadóttir (2 milljónir). Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fékk 1,5 milljón, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fékk 1150 þúsund, Kristján Möller fékk 1 milljón og Guðlaugur Þ. Þórðarson fékk 1 milljón. Ármann Kr. Ólafsson fékk 300 þúsund, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir fékk 250 þúsund, Björgvin G. Sigurðsson fékk 100 þúsund, Hanna Birna Kristjánsdóttir fékk 100 þúsund, Stefán Jón Hafstein fékk 100 þúsund, Guðni Ágústsson fékk 300 þúsund, Helgi Hjörvar fékk 400 þúsund, Ragnheiður Elín Árnadóttir fékk 250 þúsund og Kjartan Magnússon fékk 100 þúsund.

Landsbankinn styrkti fleiri stjórnmálamenn en Kaupþing. Ármann Kr. Ólafsson fékk 750 þúsund frá Landsbankanum, Árni Páll Árnason fékk 300 þúsund, Ásta Möller fékk 750 þúsund, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir fékk 300 þúsund, Bjarni Harðarson fékk 200 þúsund, Björgvin G. Sigurðsson fékk 1 milljón, Björk Guðjónsdóttir fékk 50 þúsund, Björn Ingi Hrafnsson fékk 750 þúsund, Dagur B. Eggertsson fékk 500 þúsund, Kristján Möller fékk 1,5 milljón, Guðbjartur Hannesson fékk 1 milljón, Guðfinna S. Bjarnadóttir fékk 1 milljón, Guðlaugur Þ. Þórðarson fékk 1,5 milljón, Hanna Birna Kristjánsdóttir fékk 500 þúsund, Jóhanna Sigurðardóttir fékk 200 þúsund, Júlíus Vífill Ingvarsson fékk 450 þúsund, Katrín Júlíusdóttir fékk 200 þúsund, Kristrún Heimisdóttir fékk 1 milljón, Marta Guðjónsdóttir fékk 150 þúsund, Sigurður Kári Kristjánsson fékk 750 þúsund, Sigurrós Þorgrímsdóttir fékk 250 þúsund, Stefán Jón Hafstein fékk 500 þúsund, Steinunn Valdís Óskarsdóttir fékk 3,5 milljónir, Helgi Hjörvar fékk 400 þúsund, Björn Bjarnason fékk 1,5 milljón, Guðni Ágústsson fékk 500 þúsund, Ragnheiður Elín Árnadóttir fékk 300 þúsund, Kjartan Magnússon fékk 500 þúsund, Valgerður Bjarnadóttir fékk 200 þúsund, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fékk 1,5 milljón og Össur Skarphéðinsson fékk 1,5 milljón.

Ekki var hægt að vinna úr gögnum frá Glitni um styrki til stjórnmálamanna.

Rannsóknarnefndin spurðist fyrir um ferðir stjórnmálamanna með einkaþotum og boð í laxveiðiferðir. Athygli vekur að á farþegalistum er talsvert um merkinguna „Unknown Passenger“. Einungis nafn eins stjórnmálamanns er á listanum, en í september 2007 ferðaðist Bjarni Benediktsson með einkaþotu Glitnismanna til Skotlands. Bjarni var þá stjórnarformaður N-1.

Fram kemur að Björn Ingi Hrafnsson þáði boðsferð hjá Kaupþingi árið 2007 til London og að hann þáði boð Glitnis í veiðiferð sama ár. Gísli Marteinn Baldursson flaug í boði Glitnis til Rússlands og renndi þar fyrir lax.

mbl.is