Gosóróinn minnkar enn

Sáralítill órói berst nú frá eldstöðinni í Eyjafjallajökli. Smávægilegur gufumökkur …
Sáralítill órói berst nú frá eldstöðinni í Eyjafjallajökli. Smávægilegur gufumökkur berst frá fjallinu. http://eldgos.mila.is

Gosið í Eyjafjallajökli virðist liggja niðri. Gosórói heldur áfram að minka og nálgast það sem hann var fyrir eldgosið. Gufumökkur er sjáanlegur á þeim stað þar sem gígurinn er og nær í nokkra tugi metra hæð yfir jökulinn en engar tilkynningar hafa borist um öskufall síðustu sólarhringa.

Í stöðuskýrslu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir, að mikill kraftur verði nú lagður í hreinsun á svæðinu og sé sú vinna skipulögð í þjónustumiðstöðvunum, sem settar hafa verið upp undir Eyjafjöllum.

Ekki er búist við öskufalli nú á meðan gosið liggur niðri en þegar aska, sem þegar hefur fallið, þornar getur hún hafist á loft með vindi og roki. Því er íbúum á svæðinu ráðlagt að fylgjast með svifryksmælingum áfram á þessum stöðum.

Á Hvolsvelli hafa loftgæði verið góð síðan á föstudaginn 21. maí. Hæglátt veður hefur verið og ekkert öskufall átt sér stað á svæðinu á þessum tíma. Svifryksmælingar hafa því sýnt gildi undir heilsuverndarmörkum. Svipaða sögu má segja af Heimalandi en þar voru gildin einnig vel undir heilsuverndarmörkum þessa daga.

Í Vík í Mýrdal voru loftgæði hinsvegar ekki eins góð  og var svifryksmengun yfir heilsuverndarmörkum á sunnudag og í gær.

Svifryksmælingar á Hvolsvelli

mbl.is