Telja líklegt að Katla gjósi bráðlega

Rafhlaðnar agnir voru í gosöskunni frá Eyjafjallajökli.
Rafhlaðnar agnir voru í gosöskunni frá Eyjafjallajökli.

Vísindamenn við University College London (UCL) segja í skýrslu, að mjög líklegt sé að eldfjalli Katla byrji að gjósa í náinni framtíð og slíkt gos gæti valdið mun meiri truflunum á flugumferð í Evrópu og víðar en gosið í Eyjafjallajökli.  

Sérfræðingar UCL, jarðvísindamenn, verkfræðingar og tölfræðingar, gagnrýna í skýrslunni þau viðbrögð sem urðu við eldgosinu í Eyjafjallajökli. Segja þeir að truflanirnar, sem urðu á flugumferð í Evrópu og voru þær mestu frá lokum síðari heimsstyrjaldar, hafi endurspeglað að lítið samræmi sé milli þeirra sem fylgjast með öskudreifingu, þeirra sem eiga að vara við hættum og þeirra sem gera áhættumat.

Reynir Böðvarsson, sem vinnur á sænsku jarðvísindastofnuninni í Uppsölum, segir hins vegar við blaðið Dagens Industri í morgun að engar sérstakar vísbendingar séu um að Katla sé að vakna af dvalanum. 

Í annarri skýrslu, sem vísindamenn hjá bresku eðlisfræðistofnuninni sendu frá sér í morgun, segir að umtalsverð rafhleðsla hafi verið í öskunni frá Eyjafjallajökli.  

Segja vísindamennirnir, að umtalsverð og sjálfnærandi rafhleðsla hafi verið í öskuskýinu, sem lá yfir Skotlandi og bæði flugvélum og farþegum geti stafað hætta af slíku. 

Fram kemur í skýrslunni, að rafmagnaðar agnir geti truflað fjarskipti flugvéla og ef þær komist inn í farangursrými geti þær haft áhrif á farþega og rafkerfi flugvélanna.  

Vísindamennirnir sendu sérútbúinn veðurloftbelg á loft til að rannsaka öskuskýið yfir Skotlandi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina