Svíakonungur á ferð undir Eyjafjöllum

Svíakonungur hefur oft komið í heimsókn hingað til lands. Hér …
Svíakonungur hefur oft komið í heimsókn hingað til lands. Hér sést hann með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, árið 2004. mbl.is/Golli

Karl Gústaf Svíakonungur hefur verið á ferðalagi hér á landi síðustu daga. Hann skoðaði sig meðal annars um undir Eyjafjöllum, þar sem Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, hitti hann fyrir tilviljun og sagði honum undan og ofan af því sem gerst hefur frá því Eyjafjallajökull hóf að gjósa í vor.

Ólafur sagði við mbl.is, að hann hefði verið á leið á akrana fyrir nokkrum dögum þegar hann sá hóp fólks standa við veginn, þar á meðal Svíakonung. Sagðist Ólafur hafa rætt við konung og svarað spurningum hans um hvernig Eyfellingum hefði gengið að fást við afleiðingar eldgossins. 

Að sögn sænska sendiráðsins á Íslandi er Karl Gústaf hér í einkaerindum, í fríi ásamt vinum sínum, og eru ekki fleiri meðlimir konungsfjölskyldunnar með í för. Konungur hefur dvalið á Hótel Rangá og m.a. veitt lax, en hann heldur heim á leið á morgun. 

Ólafur segir, að ferðamenn sýni gosstöðvunum mikinn áhuga og þeir stoppi gjarnan við þjóðveginn og skoði vegsummerkin eftir gosið en frá þjóðveginum framan við Þorvaldseyri sést vel til Eyjafjallajökuls. Ólafur segist sýna ferðamönnum svæðið og myndir frá eldgosinu og sumir þeirra taka með sér ösku sem minjagrip.

Á næstunni er m.a. von á hópi erlendra vísindamanna, sem ætla að rannsaka svæðið og um miðjan september er einnig von á hópi erlendra blaðamanna, sem vilja kynna sér ástandið. „Það er gott að fólk vill fylgjast með uppbyggingunni og sjái hvað hún hefur gengið vel," sagði Ólafur.

Á vef norska blaðsins VG í dag er haft eftir Ólafi að hann áformi að setja næsta sumar upp upplýsingaskilti á Þorvaldseyri um gosið. Þá sé verið að gera mynd sem fjallar um hvernig jörðin leit út fyrir gosið, meðan á því stóð og eftir að því lauk.

Að sögn Ólafs sjást ekki mikil ummerki um öskufallið og grasspretta hefur verið með miklum ágætum í sumar. Það eigi að vísu eftir að koma í  ljós hvernig gangi að gefa heyið í vetur en ekki sé að sjá að aska sé í því. Segist Ólafur vera búinn að slá tvisvar og hafði þann hátt á, að binda heyið strax eftir slátt en snúa því ekki til að þyrla öskunni síður upp. 

Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri.
Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri. mbl.is/Ómar
mbl.is