Gengislán í Hæstarétti

Frá Hæstarétti í morgun
Frá Hæstarétti í morgun mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Mál sem varðar bílalán sem gengistryggt var með ólögmætum hætti, svokallað myntkörfulán, og Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í að lánsféð skyldi bera óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands í stað samningsvaxta er nú tekið fyrir í Hæstarétti.

Hæstiréttur kvað í júní upp tvo dóma um að gengistrygging lánsfjár í íslenskum krónum stæðist ekki lög. Þar sem lánveitendur gerðu ekki kröfu um breytingu á lánasamningunum tók rétturinn ekki afstöðu til þess hvort eða hvernig skyldi gera lánin upp.

Er því ekki deilt um það í málunum hvort gengistryggingin skuli standa heldur hvernig skuli gera upp lánin og reikna eftirstöðvar þess eða ofgreiðslu. Niðurstaða héraðsdóms var fyrsti dómurinn sem kveður á um þetta. Er lokadóms Hæstaréttar í málinu því beðið með óþreyju.

Dómarar í málinu eru Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. Samkvæmt lögum um dómstóla skulu þrír eða fimm dómarar taka þátt í meðferð máls fyrir Hæstarétti en í sérstaklega mikilvægum málum er heimild til þess að dómarar í máli séu sjö. Hefur sú heimild sjaldan verið nýtt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert