Mistókst að ná sameiginlegri niðurstöðu um ábyrgð

Helgi Hjörvar.
Helgi Hjörvar.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að stjórnmálastéttinni hefði mistekist að ná sameiginlegum skilningi um hvernig eigi að ná sáttum og ljúka uppgjöri eftir fjármálahrunið.

„Þar er ábyrgð okkar allra mikil og skortur á pólitískri forustu  og mun þar trúlega á annan veginn ráða nokkru refsivilji og á hinn bóginn afneitun," sagði Helgi.

Hann sagði, að málinu muni ekki ljúka í dag með atkvæðagreiðslu um þingsályktunartillögur um málshöfðun á hendur ráðherrum því þingið væri þverklofið í afstöðu sinni. Dapurlegt væri, að málið skyldi hafa orðið að ágreiningsmáli í þingmannanefndinni og flokkslínur hefðu að sumu leyti litað niðurstöðurnar. 

Helgi sagði að það væri skylda þingmanna að taka afstöðu með efni málsins. Það væri þung skylda, ekki síst fyrir þá alþingismenn, sem sátu á Alþingi í aðdraganda hrunsins og deildu ábyrgðinni á því hvernig fór.

Helgi sagði, að mikilvægt væri að fara afar varlega og túlka vafa þeim í vil, sem í hlut ættu. Auðvelt væri að segja að þetta og hitt hefði átt að gera en sú spurning væri áleitin hvort  ekki hafi þurft að krefjast meiri ábyrgðar en sýnd var í aprílmánuði árið 2008 og þær tillögur og tilboð sem þáverandi forusta Seðlabankans og þáverandi forsætisráðherra fengu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Englandsbanka um að koma Íslendingum til aðstoðar.

„Ég spyr mig hvort ekki verði að ætlast til þess, þegar skip er í nauðum, að skipstjóri þess þiggi hjálp þegar boðin er og jafnframt ætlast til að þessum upplýsingum sé deilt með öðrum stjórnendum á skipinu," sagði Helgi.

Hann sagðist hins vegar hafa verið mun gagnrýnni á þá umfjöllum, sem sé í þingsályktunartillögunum um embættisfærslu fyrrverandi utanríkisráðherra. Þá hefði það komið á óvart, að fyrrverandi utanríkisráðherra skyldi ekki með skýrari hætti hafa verið gefið færi á að bregðast við ávirðingum, sem á hana voru bornar. 

Þá sagði Helgi að hann teldi skorta á atvikalýsingu varðandi fyrrverandi fjármálaráðherra og fyrrverandi viðskiptaráðherra, um að þeir hefðu látið undir höfuð leggjast að grípa til einhverra tiltekinna athafna, sem annar hvor þeirra hafi haft vald til eða tækifæri til að  grípa til.

mbl.is