Óvissustig vegna Grímsvatna

Eldgos hafa gjarnan fylgt Grímsvatnahlaupum. Engin merki eru þó enn …
Eldgos hafa gjarnan fylgt Grímsvatnahlaupum. Engin merki eru þó enn um gos. Myndin er úr myndasafni. Rax / Ragnar Axelsson

Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi vegna Grímsvatnahlaups og mögulegs eldgoss. Það er lægsta stig af þremur í almannavörnum. Fulltrúar almannavarna, Veðurstofunnar og Raunvísindastofnunar HÍ héldu fund um Grímsvatnahlaupið í dag.

„Við fórum yfir stöðuna og hlaupið er að vaxa hratt, eins og fram hefur komið,“ sagði Víðir Reynisson deildarstjóri almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra. Hann benti á að engin merki séu enn um að eldgos sé hafið. Í ljósi sögunnar þyki rétt að hafa vaðið fyrir neðan sig í þessum efnum.

Yfirlýsingu um óvissustig fylgja ekki neinar takmarkanir á umferð, t.d. um Vatnajökul. Víðir sagði að ákvörðuninni fylgi nánara samstarf á milli stofnana og fastmótaðra upplýsingaferli. 

„Við erum að fylgjast með þessu,“ sagði Víðir. Hann benti á að Grímsvatnahlaup hafi verið tiltölulega meinlaus í seinni tíð og miklu minna vatn safnist í Grímsvötn nú en fyrir Gjálpargosið sem varð 1996.

Komi upp gos í Grímsvötnum innan gosöskjunnar þá bendi flest til að það verði fremur meinlítið. Yfirleitt séu það fremur skammæ gos og lítið af gosefnum.

Almannavarnir sendu frá sér svohljóðandi tilkynningu nú síðdegis:

„Fundur var haldinn í vísindamannaráði í dag vegna nýjustu atburða í náttúru Íslands. Jarðskjálftar, eldgos og jökulhlaup voru þar á dagskrá. Sérstaklega voru Grímsvötn til athugunar vegna jökulhlaups sem hófst á sunnudaginn.

Jökulhlaup frá Grimsvötnum hafa komið af stað eldgosum síðast árið 2004 og því ástæða til árvekni. Þess vegna var ákveðið að lýsa yfir lægsta háskastigi almannavarna, svonefndu óvissustigi, þar sem nú er hafin atburðarrás í náttúrunni, sem á síðari stigum gæti leitt til þess að öryggi fólks, umhverfis eða byggðar er ógnað.

Á þessu stigi hefst samráð á milli almannavarna og þeirra stofnana sem málið varðar. Athuganir, rannsóknir, vöktun og mat er aukið. Atburðurinn er skilgreindur og hættumat framkvæmt reglulega til að meta stöðuna á hverjum tíma.“

mbl.is